Við vinnum fyrir þig

Translate to

Atvinnuleysi á Suðurlandi 4,2% í maí

Skráð atvinnuleysi í maí  2012  var 5,6%  en að meðaltali voru 9.826 atvinnulausir í  maí og fækkaði
atvinnulausum um 1.011 að meðaltali frá apríl eða um 0,9 prósentustig. Þetta kemur fram í nýjum tölum Vinnumálastofnunar. Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 789 að meðaltali og konum um 222. Atvinnulausum fækkaði um 595 á höfuðborgarsvæðinu en um 416 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 6,3% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 7,1% í fyrri mánuði. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 4,5% og minnkaði úr 5,4% í fyrri mánuði.  Á Suðurlandi var atvinnuleysið 4,2% og minnkaði úr 5,1%. í fyrra  mánuði.  Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 9,4% og minnkaði úr 11% í fyrri mánuði. Minnst var atvinnuleysið á Vestfjörðum 2% og 2,1% á Norðurlandi vestra.  Atvinnuleysið var 5,4% meðal karla og 5,9% meðal  kvenna.

Tekið af heimasíðu ASÍ og VMST

Kjarval með í verðkönnun ASÍ á matvörum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum um allt land þriðjudaginn 5. júní. Á Suðurlandi fór fram verðkönnun í verslun Kjarvals á Hvolsvelli.  Verslanir Kjarvals hafa ekki verið áður með í könnun ASÍ á matvörum. Kjarval er með verslanir á Hellu, Hvolsvelli, Vík, Klaustri, Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn

 

Frétt ASÍ:

Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum um allt land þriðjudaginn 5. júní. Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í könnuninni. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10-11 Laugavegi eða í næstum helmingi tilvika en lægsta verðið var eins og áður sagði oftast að finna í verslun Bónus í Vallarhverfi. Í fjórðungi tilvika var yfir 75% verðmunur, en oftast var 25-75% verðmunur á hæsta og lægsta verði vöru á milli verslana.

Lágt vöruverð og vöruúrval fer ekki alltaf saman
Mest vöruúrval í könnuninni var í verslun Nóatúns Austurveri en þar fengust 83 af 89 vörutegundum sem skoðaðar voru, næstmest úrval var í verslun Hagkaupa í Kringlunni eða 81, Samkaup-Úrval, Nettó og Fjarðarkaup áttu til 80 vörutegundir af þeim 89 sem skoðaðar voru. Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Kaskó á Húsavík og 10-11 Laugavegi eða 62 af 89, þar á eftir komu verslanirnar Samkaup-Strax, Kjarval og Bónus sem áttu til 69 af 89.

Þegar borin eru saman verð á milli verslananna á þeim 89 vörutegundum sem verðlagseftirlitið skoðaði var verslunin 10-11 Laugavegi með hæsta verðið í 39 tilvikum, Samkaup-Strax Hófgerði í 30 tilvikum og Kjarval á Hvolsvelli í 10 tilvikum. Bónus var með lægsta verðið á 41 vörutegund af þeim 89 sem skoðaðar voru, Fjarðarkaup var lægst í 19 tilvikum, Krónan í 18 og Nettó í 14.

Mestur verðmunur var á ávöxtum og grænmeti
Af þeim 12 tegundum af ávöxtum og grænmeti sem skoðaðar voru, var verðmunurinn yfir 100% í 10 tilvikum. Minnstur verðmunur var á plómum, sem voru ódýrastar á 689 kr./kg. í Kjarval á Hvolsvelli, en dýrastar á 788 kr./kg. hjá Samkaupum-Strax, verðmunurinn var 99 kr. eða 14%. Mestur verðmunur var á sítrusávextinum lime, sem var dýrastur á 799 kr./kg. í 10-11 en ódýrastur í Nettó í Mjódd á 314 kr./kg. verðmunurinn var 485 kr. eða 154%.

Minnstur verðmunur í könnunni var á medisterpylsu frá Goða sem var dýrust á 822 kr./kg. í Kjarval en ódýrust á 800 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum verðmunurinn var 22 kr. eða 3%. Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á líter af AB mjólk sem var dýrust á 329 kr. í 10-11 en ódýrust á 218 kr./l. í Bónus, verðmunurinn er 111 kr. eða 51%. Hálft Myllu Fittý samlokubrauð var dýrast á 498 kr. hjá Samkaupum-Strax en ódýrast á 287 kr. í Bónus sem er 74% verðmunur.

430 gr. af Wheetabix var ódýrast á 498 kr. hjá Krónunni og Fjarðarkaupum en dýrast á 699 kr. hjá Samkaupum-Strax sem gerir 40% verðmun. Fersk ýsuflök voru ódýrust á 1.249 kr./kg. hjá Bónus en dýrust á 1.779 kr./kg. hjá Hagkaupum sem er 42% verðmunur. Mjúkís ársins 2011 frá Kjörís „Kókosís“ var ódýrastur á 545 kr./l. hjá Hagkaupum en dýrastur á 899 kr./l. hjá 10-11 sem er 65% verðmunur. 60 ml. Tabasco sósa var ódýrust á 264 kr. hjá Fjarðarkaupum en dýrust á 353 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 34% verðmunur.

Hálfur lítri af Kristal plús m/sítrónu og engifer var ódýrastur á 145 kr. hjá Krónunni en dýrastur á 259 kr. hjá 10-11 sem er 79% verðmunur. Merrild kaffi var ódýrast á 857 kr. hjá Bónus en dýrast á 1.130 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 32% verðmunur. Tíðatapparnir frá o.b. Pro comfort super 16 stk. voru ódýrastir á 493 kr. hjá Kaskó en dýrastir á 616 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 25% verðmunur.

Sjá nánari upplýsingar í töflu. á heimasíðu ASÍ.

Í könnuninni var skráð hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Vallahverfi, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Austurveri, Samkaupum-Úrvali Hrísalundi, Hagkaupum Kringlunni, Kaskó Húsavík, Kjarval Hvolsvelli, 10-11 Laugavegi og Samkaupum-Strax Hófgerði.

Verslunin Kostur og verslunin Víðir neituðu þátttöku í könnuninni
Kostur Dalvegi og Víðir heimiluðu ekki verðlagseftirlitinu að taka niður verð í verslunum sínum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

 

Ámælisverð vinnubrögð útgerðarmanna

Undanfarna daga hafa nokkrir útgerðarmenn haldið fundi með starfsfólki sínu vegna þeirrar ólögmætu vinnustöðvunar sem LÍÚ boðaði til. Fulltrúum stéttarfélaga hefur verið meinaður aðgangur að þessum fundum þegar þeir ætluðu að gæta að því að ekki væri verið hóta starfsfólki ef það fylgdi ekki útgerðinni að málum. Hafa verður í huga að við núverandi aðstæður á vinnumarkaði hafa starfsmenn engan annann valkost en að taka undir með sínum atvinnurekanda af ótta við hugsanlegar afleiðingar.

Ef þetta eru vinnubrögðin sem tíðkast hjá íslenskum útgerðum um þessar mundir, er gróflega brotið gegn þeim reglum sem gilda um samskipti atvinnurekenda og starfsmanna annars vegar og atvinnurekenda og stéttarfélaga hins vegar. Slík vinnubrögð verða ekki liðin.

Í fjórðu grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir:

Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:
a. uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,
b. fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.

ASÍ telur að framganga útgerðarmanna í þessu máli vinni algerlega gegn því markmiði að ná fram mikilvægum breytingum á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða.

 

SGS mótmælir aðgerðum LÍÚ harðlega

Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega aðgerðum LÍÚ um að hvetja sína félagsmenn til þess að halda fiskiskipaflotanum í landi um óákveðinn tíma til að knýja á um viðræður við stjórnvöld um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjald. Í huga SGS er um ólögmætar aðgerðir að ræða þar sem þær fela í sér brot á 17.gr. laga nr. 80/1983 um stéttarfélög og vinnudeilur.  

Það er mikil hættta á því að þessar aðgerðir LÍÚ muni koma illa við landverkafólk, en tilbúinn hráefnisskortur mun leiða til vinnslustöðvunar. Nú þegar eru þessar aðgerðir farnar að hafa áhrif á vinnslu í nokkrum fyrirtækjum og er óljóst hvort fiskvinnslufólk muni verða fyrir tekjuskerðingu. LÍÚ hefur upplýst að starfsfólk verði tryggt laun samkvæmt kjarasamningum á meðan á aðgerðum stendur, en það er rétt að minna á að tekjur fiskvinnslufólks eru samsettar af grunnlaunum annars vegar og bónusgreiðslum hinsvegar. Eins og staðan er núna er aldeilis óvísst hvort fiskvinnslufyrirtæki muni greiða öll laun á meðan á þessum aðgerðum stendur. 

Starfsgreinasambandið mun fylgjast grant með áhrifum þessa aðgerða og meta hvort þær muni þýða tekjutap fyrir okkar félagsmenn. SGS í samvinnu við ASÍ áskilur sér rétt til málshöfðunar til heimtu skaðabóta og sekta ef þessar aðgerðir munu hafa áhrif á tekjur okkar félagsmanna.

Í umsögn SGS um frumvörp til laga um fiskveiðistjórnun og veiðigjald var líst yfir ákveðnum áhyggjum um að fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda gætu haft neikvæð áhrif á kjör og starfsöryggi landverkfólks. Á hinn bóginn telur Starfsgreinasambandið það með öllu óásættanlegt að LÍÚ ráðist í einhliða pólitískar aðgerðir sem muni bitna á okkar umbjóðendum. 

Tekið af heimasíðu SGS

ASÍ mótmælir aðgerðum LÍÚ

Eins og komið hefur fram í fréttum hefur LÍÚ boðað að skip í eigu félagsmanna samtakanna muni ekki sigla til veiða í þessari viku. Aðgerðin miðar að því að hafa áhrif á stjórnvöld og Alþingi vegna þeirrar umræðu sem nú á sér stað um lagasetningu varðandi fiskveiðistjórnun og auðlindagjald. Komi þessar hótanir til framkvæmda er um að ræða skýlaust brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem jafnframt getur haf alvarleg áhrif á afkomu þeirra sem starfa við sjávarútveg og fiskvinnslu. Í framangreindu ljósi hefur forsvarsmönnum SA og LÍÚ verið sent skeyti  með eftirfarandi texta:

„Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega boðuðum ólögmætum aðgerðum LÍÚ sbr. fréttatilkynningu samtakanna frá 2. júní sl. Aðgerðirnar fela í sér skýrt brot á 17. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og alvarlegt brot á samskiptareglum á vinnumarkaði. ASÍ áskilur sér, aðildarsamtökum sínum og einstaka félagsmönnum, rétt til málshöfðunar til heimtu skaðabóta og sekta komi aðgerðirnar til framkvæmda.“
Jafnfram hefur ríkissáttasemjari verið upplýstur um málið.

————

Í 17. gr laga um stéttarfélög og vinnudeilur 2. tölulið segir:
Óheimilt er og að hefja vinnustöðvun: Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Ágæt mæting á aðalfund Bárunnar, stéttarfélags

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn í gær á Hótel Selfossi. Á dagskrá fundarins voru venjuleg aðalfundarstörf. Skýrsla formanns, ársreikningar félagsins og stjórnarkjör voru þar meðal. Engar breytingar urðu á aðalstjórn félagsins en Hermann Ingi Ragnarsson er nýr stjórnarmaður í varastjórn.

Í stjórn Bárunnar, stéttarfélags árin 2012 til 2013 eru:

Formaður: Halldóra Sigríður Sveinsdóttir

Varaformaður: Örn Bragi Tryggvason

Meðstjórn: Loftur Guðmundsson, Ingvar Garðarsson, Marta Katarzyna Kuc, Ragnhildur Eiríksdóttir og Magnús Ragnar Magnússon

Varastjórn:

1. Jón Þröstur Jóhannesson

2. Hermann Ingi Magnússon

3. Hjalti Tómasson

Kynnt var samþykkt stjórnar Sjúkrasjóðs Bárunnar vegna breytingu á reglugerð sjóðsins. Styrkur til líkamsræktar er 50% af kostnaði þó að hámarki kr. 12.500 (var áður kr. 7500) á ári fyrir 0 – 50% starf,  en kr.25.000 kr. (var áður kr. 15.000) fyrir 51 – 100% starf. Eftir að hefðbundnum aðalfundarstörfum lauk hélt fjölmiðlakonan Sirrý við og hélt afar kraftmikinn fyrirlestur um samskiptafærni og leiðir til að láta draumana rætast. Fyrirlesturinn vakti mikla lukku meðal fundarmanna.

Formaður Bárunnar heimsótti fyrirtæki í uppsveitum Árnessýslu

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags  og Gils Einarsson varaformaður Verslunarmannafélags Suðurlands heimsóttu fjölmörg fyrirtæki í uppsveitum Árnessýslu í gær. Nú er framundan aðal ferðamannatímabilið og fjöldinn allur af skólafólki á leið í sumarvinnu. Tilgangurinn með átakinu er að styrkja tengsl við félagsmenn í fyrirtækjum fyrir aðal vertíðina sem er framundan. Heimsótt voru framleiðslu- og ferðaþjónustufyrirtæki  þar sem félagsmönnum og rekstaraðilum var boðið að fá upplýsingar um þjónustu félaganna. Í öllum fyrirtækjunum voru móttökur góðar og voru félagsmenn ánægðir með átakið og kunna vel að meta þá þjónustu sem félögin bjóða upp á. Markmiðið er að heimsækja fleiri fyrirtæki á félagssvæðinu á næstu vikum. Félagsmenn sem óska eftir að fá fulltrúa frá félögunum í heimsókn geta haft samband við Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna´á Suðurlandi í síma 480-5000.

 

7 milljón manna verkalýðssamtök stofnuð í dag

Ein stærstu verkalýðssamtök Evrópu voru formlega stofnuð í dag en þau ná til verkafólks í iðnaði um alla álfuna. Samtökin hafa hlotið nafnið Industry all og eru Starfsgreinasambandið, VM og Samiðn meðal stofnaðila þess. Industry all verður til við samruna þriggja eldri félaga og mun það hafa 7 milljón verkamenn í iðnaði innan sinna vébanda og slagkrafturinn því mikill.

Sumarfrí

Nú er orlofstímabilið hafið og margir farnir að huga að sumarfríinu. Þess má geta að allt launafólk á rétt á orlofi og orlofslaunum skv. orlofslögum. Orlofsrétturinn skiptist annars vegar í rétt til leyfis frá störfum og rétt til launa á þeim tíma.