Við vinnum fyrir þig

Translate to

Svör við nokkrum spurningum varðandi félagsaðild að stéttarfélagi

Í vinnustaðaheimsóknum Bárunnar, stéttarfélags á síðustu misserum hefur verið mjög áberandi í umræðunni stéttarfélagsaðild starfsmanna fyrirtækja. Viðmælendur virtust almennt ekki
meðvitaðir um hvaða meginreglur gilda varðandi stéttarfélagsaðild. Ýmsar spurningar fylgdu í kjölfarið og ætlum við að reyna að svara þeim hér.

 

„Þarf ég að greiða í stéttarfélag?“

Samkvæmt lögum frá 1980 nr. 55 er atvinnurekendum gert skylt að halda eftir af launum starfsmanna iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og ákvæðum l. 55/1980 er launafólki frjálst að standa utan stéttarfélaga þótt því beri aftur á móti skylda til þess að taka þátt í fjármögnun kjarnahlutverks stéttarfélaganna sem er að gera lágmarks kjarasamninga sem ná til allra óháð formlegri félagsaðild.

 

„Ef ég skipti um félag missi ég þá öll réttindi?“

 Ef iðgjald er greitt til aðildarfélaga innan ASÍ flytur viðkomandi réttindi á milli stéttarfélaga. Báran fylgir sínum félagsmönnum eftir í 6 mánuði eftir að hætt er að greiða á meðan félgasmaður ávinnur sér rétt í nýju félagi.

 

„Er ekki sama í hvaða stéttarfélagi ég greiði?“

Stéttarfélögin hafa gert samkomulag um félagssvæðin. Í lögum hvers félags eru félagssvæðin tilgreind.  Báran, stéttarfélag er með félagssvæði milli Þjórsár og Ölfusár utan Ölfuss og Hveragerðis. Þeir sem starfa á þessum ákveðnu félagssvæðum greiða til þess félags sem félagssvæðið tilheyrir.

 

„Get ég valið um stéttarfélag á sama félagssvæði?“

 Ef tvö félög eða fleiri eru aðilar að sama kjarasamnigi í sömu starfsgrein á sama félagssvæði er hægt að velja félag.

 

„Hvað græði ég á því að greiða í stéttarfélag?“

Flest félög ganga eins langt og hægt er varðandi réttindi félagsmönnum til handa. Félögin eru með sjúkradagpeninga, sjúkrastyrki, starfsmenntasjóði, orlofshús, og almenna lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn. Einnig starfar Virk starfsendurhæfingarsjóður á vegum stéttarfélaganna.

 

„Hvað gerir Virk fyrir mig?“

Ef starfsgeta þín er skert vegna heilsubrests getur þú leitað aðstoðar hjá ráðgjafa sjúkrasjóðs stéttarfélagsins þíns. Ráðgjafinn aðstoðar þig við að efla færni þína og vinnugetu. Þjónustan miðar að því að efla styrkleika þína og draga úr áhrifum hindrana á vinnugetu og þátttöku á vinnumarkaði.

 

„Getur atvinnurekandinn ákveðið í hvaða félag ég greiði?“

Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna fyrirtækisins til hvaða félags þeir eiga að greiða.

 

„Eru sömu laun í öllum stéttarfélögum?“

Í öllum kjarasamningum er kveðið á um lágmarkslaun sem þýðir að ekki megi greiða lægra en lágmarkstaxta. Engin kjarasamningur eða stéttarfélag hamlar því að ekki megi greiða meira. Það er öllum frjálst að greiða góð laun óháð félagsaðild. Öll félög hvetja til bættra kjara. Lágmarkstaxti er ekkert lögmál.

 

Vonandi svarar þetta einhverjum spurningum. Ýmsar upplýsingar eru á heimasíðu félagsins varðandi kaup og kjör. Viljum við hvetja félagsmenn til þessa að fylgjast með heimasíðunni og facebook síðunni.

Slóðin er www.baran.is

Skrifstofan að Austurvegi 56, er opin  mánudaga til fimmtudaga frá 8:00-16:00 og frá 08:00-15:00 á föstudögum.

Betra aðgengi fyrir hreyfihamlaða á baðherbergi og nýtt sjónvarp, í orlofsíbúð okkar á Akureyri.

Starfsmenn okkar fóru nú á dögunum í íbúð okkar á Akureyri og fínpússuðu hana fyrir sumarútleiguna. Byrjað var á því að mála íbúðina.

Mikilvægt er að hafa bústaði okkar og íbúðir eins aðgengilegar og hægt er fyrir hreyfihamlaða. Við höfum verið að bæta úr því að undanförnu.

Allar okkar eignir eru á 1. hæð nema íbúð okkar í Sóltúni Rvk en þar er lyfta og bílastæðakjallari. Í báðum íbúðum okkar er rafmagns hægindastóll sem bókstaflega lyftir manni uppúr honum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo fengum við hann Kristján hjá FIXA.is til að koma og setja upp arma meðfram klósettinu. Þá eru komnir armar í öll okkar orlofshús. Að auki var sett upp handfang í sturtu og keyptur sturtukollur en að auki voru keyptir slíkir kollar í hin orlofshúsin okkar og búið að setja upp í þeim húsum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hann einnig boraði upp festingar fyrir nýju  SNJALL sjónvarpi, 65″ Philips ( android ) en hægt er að nota eigin símaáskrift ( net) til að tengja net í sjónvarpið og þannig hafa valmöguleika á að  horfa á uppáhalds efnið sitt í uppáhalds öppunum, hvort sem það er t.d. Youtube, PLEX, Netflix, KODI eða Stöð 2 appið. Einnig er hægt að spegla símann eða spjaldtölvu uppá skjáinn. En auðvitað er hægt að horfa á Rúv í sjónvarpinu án þess að notast við net. Dvd spilari er einnig á staðnum (vinsamlegast ekki aftengja hann sjónvarpinu).

Keyptur var nýr skenkur þar sem gamli hafði brotnað. Einnig var bætt við bollum, kertastjökum með batterískertum og öðrum fallegum smáhlutum sem gera íbúðina enn heimilislegri.


Þá var bætt við dóti í barnaherbergið , td badminton spöðum, Botcha, ísboltadóti, Mikadó, fiskaveiðispili, turnabyggingarefni, bolta ásamt fleira skemmtilegu dóti og viljum við biðja félagsmenn um að passa uppá þetta dót.


 

 

 

 

 

 

 

Útilegukortið á aðeins kr 5.000.- fyrir félagsmenn í stað kr 19.900.-

Til þess að styðja við félagsmenn Bárunnar hefur Báran ákveðið að niðurgreiða Útilegukortið fyrir félagsmenn enn meira en árin á undan.

Það verður því á aðeins 5.000 kr í ár !

Hver félagsmaður getur fengið 1. kort. Hægt er að kaupa kortið á heimasíðu okkar og fengið það sent heim. https://orlof.is/baran/site/product/product_list.php

Hér að neðan getið þið fundið allar upplýsingar um kortið á heimasíðu Útilegukortsins.

Orlofsuppbót 2020

Þann 1. júní ár hvert skal greiða orlofsuppbót hjá starfsfólki á almennum vinnumarkaði og ríkinu. Á árinu 2020 nemur upphæðin 51.000 kr. Greiðslur þessar miðast við fullt starf á orlofsárinu (1.maí – 30. apríl). Greitt er hlutfallslega fyrir hlutastörf. Eftir eins árs starf hjá sama fyrirtæki teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning orlofsuppbótar.

 

HSU fyrirhugar að segja upp ræstingafólki !

Enn er byrjað á að reka ræstingarfólk

Á dögunum opinberaði Heilbrigðisstofnun Suðurlands fyrirætlanir sínar um að segja upp ræstingarfólki hjá stofnuninni vegna ,,skipulagsbreytinga“ og bjóða út ræstingar á starfstöðvum í Vestmannaeyjum og á Selfossi. Er hér um afar hefðbunda leið stjórnenda, þ.e. að reka ræstingafólk þegar skera á niður í rekstri.

Þessir starfsmenn hafa undanfarnar vikur verið í framlínu þeirra sem barist hafa við farsóttina á heilbrigðisstofnunum um land allt. Ekkert smit hefur greinst á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og á ræstingarfólkið stóran þátt í því.

Þakkirnar sem ræstingarfólkið fær er að vera sagt upp sínu starfi strax í kjölfarið. Það ætti að vera öllum ljóst eftir undangengnar vikur að sterkar stofnanir sem reknar eru með almannahagsmuni að leiðarljósi hafa skipt öllu máli.

Starfsgreinasamband Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við félagsmenn sína hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og mun beita afli sínu í þeim tilgangi að verja störf þeirra og réttindi.

Nánari upplýsingar,
Halldóra Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags, 8965724
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, 8978888

Starfsmenntasjóðirnir Landsmennt, Sjómennt, Sveitamennt og Ríkismennt hafa gert samkomulag við NTV skólann um 100% endurgreiðslu á aðgengi félagsmanna að kennsluvefnum www.netkennsla.is.

Starfsmenntasjóðirnir Landsmennt, Sjómennt, Sveitamennt og Ríkismennt hafa gert samkomulag við NTV skólann um 100% endurgreiðslu á aðgengi félagsmanna að kennsluvefnum www.netkennsla.is. Í  boði er sérstakt tilboð, kr. 11.900,- fyrir 12 mánaða aðgengi að yfir 600 myndböndum sem útbúin eru til að auka tölvufærni í nútíma hugbúnaðar- og skýjaumhverfi og bæta samskipti og skipulag í lífi og starfi.

 

Félagsmenn stéttarfélaga sem heyra undir sjóðina geta skráð sig beint inn á www.netkennsla.is með því að fara í „Áskriftir“ í netborða efst á síðunni og velja „Nota starfsmenntasjóð/Skrá aðgang“ Viðkomandi fyllir síðan út skráningarform, merkir við sitt stéttarfélag og „Gengur frá pöntun“. Aðgangur opnast strax fyrir notandann og reikningur verður sendur á starfsmenntasjóð viðkomandi félagsmanns.

 

 

 

Heildarsamtök launafólks standa með öryrkjum !

ASÍ Og ÖBÍ 1

ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og ÖBÍ skrifuðu í dag undir sameiginlega yfirlýsingu þar sem þess er krafist að hagur öryrkja verð bættur. Kröfurnar eru settar fram í þremur liðum:

 

1. Lágmarksframfærsla öryrkja verði hækkuð þannig að fólki sé ger kleift að lifa mannsæmandi lífi.
2. Skerðingar verði endurskoðaðar þannig að þær standi ekki í vegi fyrir þátttöku á vinnumarkaði, hvort sem er að hluta eða tímabundið og að dregið verði úr tekjuskerðingum vegna lífeyristekna.
3. Störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma verði tryggð fyrir fólk með skerta starfsgetu.

 

Í yfirlýsingunni segir m.a. að það sé allra hagur að bæta kjör öryrkja og sjá til þess að enginn sé dæmdur til fátæktar þó starfsgeta láti undan. Það er dýru verði keypt fyrir alla þegar fólk er svipt virðingu og getu til athafna.

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni

Til að leggja áherslu á þessar kröfur hafa leiðtogar stærstu heildarsamtaka launafólks skrifað eftirfarandi grein:

 

Útrýmum fátækt

 

Tæplega 10 prósent Íslendinga eiga það á hættu að búa við fátækt. Hlutfallið er enn hærra þegar kemur að börnum. Okkur ber siðferðileg skylda til að breyta þessu. Í gegnum tíðina hefur umræðu um fátækt á Íslandi verið mætt með svörum um að tekjujöfnuður hér á landi sé meiri en í samanburðarlöndum og að stéttskipting og fátækt séu þar af leiðandi minni. Það breytir ekki þeirri staðreynd að rúmlega tíunda hvert barn á Íslandi á það á hættu að búa við fátækt. Það getum við ekki sætt okkur við.

 

Öryrkjar eru sá hópur sem er líklegastur til að búa við fjárhagsþrengingar og fátækt. Börn þeirra og einstæðra foreldra eru í langmestri fátæktarhættu. Nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum djúpa kreppu af völdum COVID-19 faraldursins er hætta á að þessi hópur muni stækka. Hjálparstofnanir merkja nú þegar stóraukna spurn eftir aðstoð og segja flesta í þeim hópi vera öryrkja og langveikar einstæðar mæður.

 

Fátækt er ekki óumflýjanlegur veruleiki. Stjórnvöld hafa úrslitaáhrif á það hvort fólk búi við fátækt, með öllum þeim alvarlegu andlegu og líkamlegu afleiðingum sem henni fylgja. Það er pólitísk ákvörðun að gera ekki nóg. Afleiðing langvarandi aðgerðaleysis er að ójöfnuður mun aukast og fátækum fjölga.

 

Dæmi um slíka pólitíska ákvörðun er að láta framfærsluviðmið öryrkja ekki fylgja launaþróun í landinu. Ef framfærsluviðmið almannatrygginga hefðu fylgt launaþróun frá árinu 2009 væru þau tæplega 50 þúsund krónum hærri fyrir öryrkja sem býr með öðrum fullorðnum en rúmlega 35 þúsund krónum hærri fyrir öryrkja sem býr einn. Önnur slík pólitísk ákvörðun er að skerða örorkulífeyri eins og raun ber vitni hjá öryrkjum sem hafa vinnufærni og vilja starfa á vinnumarkaði. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað með sama hætti og laun frá 2009 væri það nærri tvöfalt hærra en það er í dag eða 208.000 kr á mánuði.

 

Einhverjir kunna að telja að þessi umræða sé ekki tímabær nú þegar við stöndum frammi fyrir gríðarmiklum vanda vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Við teljum, þvert á móti, að nú sé einmitt rétti tíminn til að styðja betur við fólk í viðkvæmri stöðu. Þá er ljóst að eitt mikilvægasta skrefið fyrir efnahagslífið nú er að auka kaupgetu fólks svo stuðla megi að aukinni neyslu innanlands. Örorkulífeyrisþegar eru margir með langvarandi lágar tekjur og eiga fyrir vikið hvorki sparifé eða eignir og hafa takmarkaða lánamöguleika. Einu bjargráð þeirra eru að leita til sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð eða sækja aðstoð frá hjálparstofnunum.

 

Reynslan frá síðastu kreppu sýnir að fjárhagsáhyggjur og slæm fjárhagsstaða hafa verulega neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks. Afleiðingar þess eru lengi að koma fram en eru langvarandi og einn helsti orsakavaldur kulnunar og örmögnunar.

 

Tíminn til aðgerða er núna. Bregðumst við með því að hækka örorkulífeyri og tryggjum að hann fylgi launaþróun. Drögum úr skerðingum hjá öryrkjum sem hafa vinnufærni og vilja leggja sitt af mörkum. Ábyrgð á fátækt bera ekki þau sem búa við hana heldur samfélagið allt. Við verðum að sjá til þess að enginn sé skilinn eftir.

 

Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB
Ragnar Þór Pétursson formaður Kennarasambands Íslands
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Bandalags háskólamanna
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands

Áskorun frá Bárunni stéttarfélagi og Drífanda stéttarfélagi

Báran og Drífandi stéttarfélög mótmæla fyrirhuguðum uppsögnum á ræstingafólki hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands – HSS. Áunnin réttindi og kjör þeirra starfsmannanna munu rýrna til muna og skapar þeim enn meiri óvissu um framtíðina en er nú þegar í þjóðfélaginu.

Starfsmennirnir hafa undanfarnar vikur verið í framlínu þeirra sem barist hafa við farsóttina á heilbrigðisstofnunum víða um landið. Störf allra starfsmanna á HSS hefur skilað þeim árangri að ekkert smit hefur greinst á stofnuninni og á ræstingafólkið stóran þátt í þeim árangri.

Þetta eru því kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar, nú er sér fyrir endann á þessum kafla farsóttarinnar. Því miður virðast gömul sannindi vera að raungerast enn og aftur með því að segja upp þeim sem lægst hafa launin ef spara þarf pening, en hlífa þeim sem hæstu launin hafa.

Stéttarfélögin skora á stjórn stofnunarinnar að finna aðrar leiðir til hagræðingar og hætta við fyrirhugaðar uppsagnir.

 

F.h. stéttarfélaganna

Arnar G. Hjaltalín

Formaður Drífanda

 

Halldóra S Sveinsdóttir

Formaður Bárunnar