Við vinnum fyrir þig

Translate to

Bónus oftast með lægsta verðið

Verslunin Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið mánudaginn 30. september. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10/11 Laugavegi eða í meira en helmingi tilvika. Verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru var frá 25% upp í 75% en í þriðjungi tilvika var meira en 75% verðmunur. Mestur var hann hins vegar 187%. Í 10% tilvika var vara óverðmerkt hjá Samkaupum-Strax á Seyðisfirði. 
 
Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 119 af 127, Nóatún í Grafarholti átti til 118 og Krónan Akranesi og Hagkaup Seltjarnarnesi áttu 116 vörur. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Strax eða 81 af 127, 10/11 átti til 87 og Kjarval Hellu átti 89 vörur.
 
Mestur verðmunur á ávöxtum og grænmeti
Af þeim 127 matvörum sem skoðaðar voru, var munur á hæsta og lægsta verði sjaldnast undir 25% og í þriðjungi tilvika var hann yfir 75% verðmunur. Minnstur verðmunur var á Goða kindakæfu, sem var ódýrust á 1.693 kr./kg. hjá Krónunni en dýrust á 1.840 kr./kg. hjá Nettó,  Samkaupum-Úrvali og Kaskó, verðmunurinn var 147 kr. eða 9%. Mestur verðmunur í könnuninni var ávaxtaperu, sem var dýrust á 799 kr. hjá 10/11 en ódýrust á 278 kr. hjá Iceland sem gerir 521 kr. verðmun eða 187%. Oftast var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði ávöxtum og grænmeti.  
 
Af þeim vörum sem til voru í öllum verslunum má nefna að mikill verðmunur var á 300 gr. smjörva sem var ódýrastur á 286 kr. hjá Bónus en dýrastur á 439 kr. hjá 10/11 sem er 53% verðmunur. Annað dæmi um mikinn verðmun má nefna Ritz kex 200 gr. sem var ódýrast á 177 kr. hjá Bónus en dýrast á 329 kr. hjá 10/11 sem er 152 kr. verðmunur eða 86%. Pepsi max 2 l. var ódýrast á 209 kr. hjá Bónus en dýrast á 459 kr. hjá 10/11 verðmunurinn 250 kr. eða 120%. Kakóið Swiss Miss m/sykurpúðum 737 gr. var ódýrast á 699 kr./kg. hjá Iceland en dýrast á 927 kr. hjá Samkaupum-Strax, verðmunurinn er 33%.  
 
Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ.  
 
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
 
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Borgarnesi, Krónunni Akranesi, Nettó Selfossi, Iceland Engihjalla, Nóatúni Grafarholti, Hagkaupum Seltjarnarnesi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Víði Hringbraut, Samkaupum-Úrvali Ísafirði, Samkaupum-Strax Seyðisfirði, Kaskó Húsavík, Kjarval Hellu og 10/11 Laugavegi.
 
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
 
Tekið af heimasíðu ASÍ
 

Félagsfundur í Bárunni, stéttafélagi

Félagsfundur var haldinn í Bárunni, stéttafélagi þ. 24 september sl.

Ágæt mæting var á fundinn. Helsta efni fundarins var að kynna fyrir félagsmönnum niðurstöður kjarakönnunar sem framkvæmd var síðustu vikurnar í ágúst og er grunnur að kröfugerð Bárunnar fyrir komandi kjarasamninga. Sú kröfugerð er innlegg Bárunnar í sameiginlega kröfugerð Starfsgreinasambandsins.

Í máli formanns kom fram að meginkröfurnar, hækkun skattleysismarka, aukinn kaupmáttur og hækkun lægstu launa umfram aðra, væru í samræmi við kröfur annarra stéttafélaga innan Starfsgreinasambands Íslands. Greinilegt var á fundamönnum að lág laun á svæðinu eru mikið áhyggjuefni og þrýstingur á að barist verði gegn þeirri þróun. Formaður fór aðeins yfir þá vinnu sem unnin hefur verið í sameiginlegri kröfugerð SGS og taldi raddir Bárunnar hafa haft töluverð áhrif í þeirri vinnu. Þess má geta að Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar sinnir mörgum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna og er ástæða fyrir félaga Bárunnar til að vera ánægðir með það traust sem formanni félagsins er sýnt af öðrum félögum verkalýðshreyfingarinnar.

Á fundinum kom skýrt fram að félagsmenn telja að forystumenn félagsins ættu að vera enn duglegri til dæmis á vettvangi fjölmiðla og inn í fyrirtækjunum sjálfum. Nauðsynlegt væri að gera baráttu félagsins sýnilegri heima í héraði.

Ýmislegt fleira var rætt, vítt og breytt, á skemmtilegum og gagnlegum fundi. Félagið bauð fundarmönnum upp á kjötsúpu að hætti hússins og sterkt og gott kaffi á eftir.

 

 24.09.2013004

Heimsókn þingmanna

Þingmenn samfylkingarinnar, þau Árni Páll Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Guðbjartur Hannesson og Soffía Sigurðardóttir komu í heimsókn á skrifstofu stéttafélaganna í gær. Tilgangurinn var að setja sig inn í þau mál sem helst brenna á okkur hér á félagssvæðinu, ásamt því að kynna fyrir forystumönnum og starfsfólki þær áherslur sem Samfylkingin setur á oddinn í atvinnumálum og uppbyggingu á svæðinu, auk þess að kynna ýmis mál sem ætlunin er að taka til umræðu á Alþingi.

Fundurinn var bæði gagnlegur og ánægjulegur enda nauðsynlegt að stjórnmálamenn séu vel upplýstir um stöðu einstakra svæða. Fjallað var meðal annars um skuldamál heimilanna, svarta atvinnustarfsemi, verðtrygginguna, áhyggjur stéttafélaganna af allt of lágum launum, ýmsar leiðir við að byggja upp leigumarkað á Íslandi og fleira. Einnig voru málefni lífeyrissjóðanna rædd og staða íslensku krónunnar í samhengi við afkomu launafólks.

Fram kom í máli þeirra að mikill vilji er til að vera í góðu sambandi við verkalýðshreyfinguna sem er stærsti einstaki fulltrúi almennings á Íslandi. Viðurkenndu þau að ýmislegt hefði farið úrskeiðis í því efni í tíð síðustu ríkisstjórnar og töldu þau nauðsynlegt að læra af þeim mistökum. Fulltrúar stéttafélaganna fóru yfir ýmislegt sem hefur verið í gangi á félagssvæðinu en lögðu mesta áherslu á að berjast gegn þeirri láglaunastefnu sem virðist hafa rutt sér til rúms á landinu undanfarin ár og áratugi. Skoðun stéttafélagsins kom skýrt fram að þessi stefna er að festa stóra hópa fólks í fátækragildru sem erfitt verður að vefja ofan af og óska þau eftir skilningi stjórnmálamanna og aðstoð við að breyta þessari stefnu.

Stéttafélögin fagna þessu frumkvæði stjórnmálamanna en auk þeirra þingmanna sem komu í heimsókn í gær þá hefur þingmaður sunnlendinga Ásmundur Friðriksson verið duglegur að afla sér upplýsinga og koma í heimsóknir til okkar. Von okkar er að raddir launamanna verði meir áberandi í sölum Alþingis en verið hefur þar sem mest öll umræða hefur verið verið um hvernig koma megi fyrirtækjum til bjargar. Launafólk þarf einnig aðstoð við að ná endum saman og þó saman gangi í viðræðum við atvinnurekendur er ljóst að aðgerðir ríkisvaldsins munu hafa mikil áhrif á hvort launafólk beri raunverulega eitthvað úr býtum.

Það er von stéttafélaganna að fleiri þingmenn verði duglegir við að heimsækja okkur, sem erum í svo nánum tengslum við vinnandi fólk, svo skilaboðin megi ná eyrum þeirra sem þau þurfa að heyra.

Minnum á félagsfund Bárunnar nk. þriðjudag

Almennur félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn að Austurvegi 56 3. hæð þriðjudaginn
24. september nk. Fundurinn byrjar með kjötsúpu kl. 19:00 í boði Bárunnar, stéttarfélags.

Dagskrá:
1. Kosning fulltrúa á þing Starfsgreinasambands
Íslands 16. – 18. október 2013.
2. Niðurstaða könnunar vegna komandi kjarasamninga.
3. Önnur mál.

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags hvetur alla félagsmenn til að mæta á fundinn og taka ábyrgð á eigin málum.

Sextán félög hafa veitt Sgs umboð til samninga á almennum markaði

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hélt fund á Hótel Heklu til að fara yfir kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga. Sextán félög hafa veitt Starfsgreinasambandinu umboð til samninga á hinum almenna markaði og kröfugerðir hafa borist frá flestum félögum. Báran, stéttarfélag er eitt þeirra félaga sem veitt hafa SGS umboð.

Töluverð óvissa er um hvernig framhald viðræðna verður enda liggur ekki fyrir endanleg viðræðuáætlun við Samtök Atvinnulífsins auk þess sem óvíst er hvernig ákvarðanir ríkisstjórnarinnar munu hafa áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna.

Niðurstaða fundarins var að semja bæri til skamms tíma vegna óvissu í efnahagsmálum en þó er ljóst að staða margra hópa innan SGS er sterk til að sækja bætt kjör. Í því sambandi bera helst að nefnda fiskvinnsluna, aðrar útflutningsgreinar auk ferðaþjónustunnar. Þá er skýr krafa um hækkun lægstu launa og að aukið nám skili sér í hækkun launa.

Til að bæta kjör launafólks þarf ríkisvaldið að koma að samningunum og er efsta krafa á blaði hækkun persónuafsláttar. Þá er brýnt að koma á betra húsnæðis- og leigukerfi á félagslegum grunni.

Skýr vilji var meðal þessara 16 aðildarfélaga að ganga sameinuð til kjarasamninga og var ákveðin verkaskiptingu innan sambandsins í komandi viðræðum. Björn Snæbjörnsson var kjörinn formaður samninganefndar og talsmaður hennar.

 Ljósmynd og texti: SGS

Fiskbúðin á Hellu næst oftast með lægsta verðið

Í nýrri könnun ASÍ á fiskafurðum kemur í ljós að verðmunurinn á hæsta og lægsta verði er að lágmarki 75%. Könnunin var gerð í 25 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð, víðsvegar um landið sl. mánudag. Kannað var verð á 23 algengum tegundum af fiskafurðum.

Lægsta verðið var oftast að finna hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi Hafnarfirði eða í 14 tilvikum af 23, fiskbúðin Fiskás Hellu var næst oftast með lægsta verðið eða í 3 tilvikum af 23. Meiri dreifing var á hæsta verðinu á milli verslana. Hæsta verðið var hjá Hafbergi Gnoðavogi í 5 tilvikum af 23, hjá Fiskbúðinni Mos Mosfellsbæ í 4 tilvikum af 23 og hjá Hagkaupum og Fiskbúðinni Höfðabakka í 3 tilvikum. Enginn söluaðli átti til allar 23 tegundirnar sem skoðaðar voru í könnuninni en Hafberg átti 22 tegundir og Litla fiskbúðin og Fiskbúðin Hófgerði áttu 21. Fæstar tegundirnar sem skoðaðar voru, voru til hjá Fylgifiskum Suðurlandbraut eða aðeins 5 af 23.

Munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 24% upp í 114%. Mestur verðmunur í könnuninni var á meðalkæstri skötu sem var dýrust á 1.690 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Höfðabakka, en ódýrust á 790 kr./kg. hjá Hafinu Hlíðarsmára en það gerir verðmun upp á 900 kr. eða 114%.

Minnstur verðmunur var á roðflettu og beinlausu þorskflaki sem var ódýrast á 1.490 kr./kg. hjá Fisk kompaní Akureyri og fiskbúðinni Fiskás en dýrust á 1.845 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði, en það gerir 355 kr. verðmun eða 24%.

Roðflett og beinhreinsað ýsuflak sem var til hjá öllum verslunum var ódýrast á 1.590 kr./kg. hjá fiskbúðinni Fiskás og Litlu fiskbúðinni en dýrast á 1.990 kr./kg. hjá Hafbergi og Fiskbúðinni Höfðabakka sem er 25% verðmunur.

Sjá nánar í töflu. í frétt á heimsíðu ASÍ.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Fylgifiskum Suðurlandsbraut, Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Fiskbúðinni Hafberg Gnoðavogi, Þinni verslun Seljabraut, Fisk kompaní Akureyri, Fiskikónginum Sogavegi, Fiskbúðinni Hafrúnu Skipholti, Fiskbúðinni Fiskás Hellu, Samkaupum Úrval Hafnarfirði, Nettó Granda,  Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Fiskbúðinni Höfðabakka, Litlu Fiskbúðinni Miðvangi, Fiskbúð Suðurlands Selfossi, Hafinu fiskverslun Hlíðasmára, Nóatúni Hringbraut, Fiskbúð Hólmgeirs Þönglabakka, Gallerý fisk Nethyl, Fiskbúðinni Hófgerði, Fiskbúð Sjávarfangs Ísafirði, Fiskbúðinni Mos Mosfellsbæ, Fiskbúð Siglufjarðar, Fiskbúðinni Vegamótum og Hagkaupum Kringlunni. Melabúðin neitaði þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. 

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Námskeið fyrir trúnaðarmenn á haustmisseri

Fræðsludagskrá haustsins  fyrir trúnaðarmenn Bárunnar, stéttarfélags  hefur nú litið dagsins ljós.  Félagsmálaskóli alþýðu mun halda námskeiðin. Trúnaðarmenn geta valið um eitt námskeið á haustmisseri:

 

TRÚNAÐARMANNANÁMSKEIÐ 2, 7. ÞREP.

23. og 24. október (miðv.d. og fimmtud.) kl. 09.00 –16.00.

Staðsetning: Fjölheimar v/Bankaveg 800 Selfoss.

Efni: Kynning á náms- og starfsráðgjöf og færnimappa talsmannsins. Trúnaðarmaðurinn tekur með sér eitthvert af þessum skjölum til að prófa:  Viðurkenningarskjöl frá námskeiðum, úr námi, starfi og einkunnir úr skóla.

 

TRÚNAÐARMANNANÁMSKEIÐ I, 1. ÞREP.

04. – 06. nóvember (mánud. til miðv.d.), kl. 09.00 – 16.00.

Staðsetning: Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi, Austurvegi  56, 800 Selfoss.

Efni: Trúnaðarmaðurinn – starf og staða, þjóðfélagið og vinnumarkaðurinn . Trúnaðarmaðurinn – starf og staða. Samskipti á vinnustað.

 

Minnt er á að námskeiðin eru opin öllum trúnaðarmönnum félagsins. Skráning er hafin og fer fram á netfanginu thor@midja.is eða á skrifstofu félagsins í síma 480-5000. Skráningu líkur viku fyrir námskeið.

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags

Almennur félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn að Austurvegi 56 3. hæð þriðjudaginn
24. september nk. Fundurinn byrjar með kjötsúpu kl. 19:00 í boði Bárunnar, stéttarfélags.

Dagskrá:
1. Kosning fulltrúa á þing Starfsgreinasambands
Íslands 16. – 18. október 2013.
2. Niðurstaða könnunar vegna komandi kjarasamninga.
3. Önnur mál.

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags hvetur alla félagsmenn til að mæta á fundinn og taka ábyrgð á eigin málum.

Boðað til fundar í stjórn og trúnaðarmannaráði Bárunnar

Ákveðið hefur verið að halda kjarafund í trúnaðarmannaráði / samninganefnd Bárunnar, stéttarfélags á Austurvegi 56 3. hæð þriðjudaginn 10. september kl. 12:00.

Fundarefni verður niðurstaða kjarakönnunar félagsins. Sendar hafa verið út ca. 1500 kannanir. Farið verður yfir þær niðurstöður sem liggja fyrir og kröfugerð félagsins fyrir komandi kjarasamninga verður að liggja fyrir í lok dags. Trúnaðarmenn hafa heimild til að taka einn með sér af vinnustaðnum.  Boðið verður upp á kjötsúpu í byrjun fundar.  Við hvetjum trúnaðarmenn til að skrá sig í síma 480-5000 eða á netfangið baran@baran.is.