Við vinnum fyrir þig

Translate to

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað um allt að 26 prósent

Af vefnum www.visir.is og www.asi.is

 

Vöruverð hefur hækkað verulega í öllum verslunum frá því í júní 2010 þar til í júní 2013, samkvæmt könnun Alþýðusamband Íslands (ASÍ) sem kynnt var í gær.

Könnunin tekur til lágvöruverðsverslana, stórmarkaða og klukkubúða en þegar rýnt er í verðhækkanir verslunarkeðjanna á þessum þremur árum má sjá að verðhækkanir eru afar mismunandi eftir verslunarkeðjum.

Mesta hækkunin á tímabilinu er hjá Tíu-ellefu verslunum en hefur verð þeirra hækkað um 26 prósent. Vörukarfa hjá Bónus hefur hækkað um 20 prósent og vörukarfa Krónunnar um 18 prósent.

Minnsta hækkunin á þessu tímabili er hinsvegar hjá verslunum Hagkaupa þar sem verð hefur hækkað um fjögur prósent og hjá  verslunum Nóatúns hefur verð  hækkað um átta prósent.

Til hilðsjónar bendir ASÍ á að verð á mat- og drykkjarföngum í vísitölu neysluverðs hafi hækkað um 17 prósent frá því í júní 2010.

Nánar um könnunina: https://asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-3757
                       

Fæði á vinnutíma

 
Rétt er að minna á að félagsmenn Bárunnar, stéttarfélags sem starfa á veitingahúsum-, skyndibitastöðum og gistihúsum eiga rétt fæði á vinnutíma þeim að kostnaðarlausu. Vinnuveitanda ber að  leggja starfsfólki til fæði á vinnutíma. Þar sem heitur matur er ekki á boðstólum og/eða starfsmaður vinnur utan hefðbundins matartíma, skal honum lagt til smurt brauð ásamt mjólk, kaffi eða te. Nokkur mál hafa borist til félagsins þar sem félagsmenn sem starfa í fyrrnefndum  starfsgreinum hafa verið rukkaðir um fæði á vinnutíma. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í kjarasamningi milli SGS og SA vegna veitinga, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða og hliðstæðrar starfssemi.

 

 

Vörukarfan hefur hækkað meira hjá lágvöruverðsverslunum en öðrum verslunum

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað um allt að 4,9% frá því í janúar (viku 5) og nú í júní (viku 24). Á tímabilinu janúar til maí var verðbólgan hins vegar aðeins tæp 2% (verðbólgumæling fyrir júní er ekki komin). Það sem af er árinu hefur vörukarfan hækkað meira hjá lágvöruverðsverslunum en öðrum verslunum, mest hjá Nettó, Bónus og Iceland. Vörukarfan hefur lækkað lítilega hjá 5 verslunum af 15, mesta lækkunin var hjá Hagkaupum sem lækkaði verðið í nánast öllum vöruflokkum.

 
Verð á vörukörfu ASÍ hefur hækkað mest hjá Nettó um (4,9%), Bónus og Iceland um (4,2%), hjá Víði um (1,9%), Krónunni og Kjarval um (1,6%), hjá Samkaupum–Úrvali um (1,5%), Tíu–ellefu um (1,2%), Nóatúni um (0,4%) og hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga um (0,3%). Vörukarfan lækkar mest hjá Hagkaupum um (2,3%), Kaupfélagi Steingrímsfjarðar um (1,1%), Kaskó um (0,6%) og hjá Samkaupum – Strax og Kaupfélagi Skagfirðinga um (0,1%).
 
Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Átakið Vertu á verði! gengur vel

Í lok febrúar hófu aðildarfélög ASÍ átak gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni – Vertu á verði! Almenningur og atvinnulífið eru þar hvött til að taka höndum saman og rjúfa vítahring verðbólgunnar. Átakinu er ætlað að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald í verðlagsmálum og vekja neytendur til aukinnar vitundar og liður í því er að senda ábendingar um verðhækkanir á vefsíðuna vertuaverdi.is

 
Henný Hinz hagfræðingur er verkefnisstjóri átaksins og hún segir það ganga vel, tæplega fjögur hundruð ábendingar hafi borist og um 10 þúsund manns heimsæki síðuna á mánuði. Viðtal við Henný má sjá í netsjónvarpi ASÍ.
 

Staðið verði við fyrirheit um hækkun til þeirra lægst launuðu!

Ályktun framkvæmdarstjórnar SGS:

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands (SGS) krefst þess að staðið verðið við þau fyrirheit að hækka laun kvennastétta innan heilbrigðisstofnana eins og gefin voru fyrirheit um í upphafi árs. Jafnlaunaátakið gerir ráð fyrir 4,8% hækkun til þeirra stétta sem skilgreindar eru sem kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana og hafa nú þegar verið undirritaðir nýjir stofnanasamningar við einhverjar stofnanir sem tryggja slíka hækkun frá 1. mars.

 

Á Alþingi þann 19. júní var málið til umræðu og greindi fjármálaráðherra þá frá því að ekki væru til fjármunir til þessa verkefnis en á sama tíma er verið að skerða tekjustofna ríkisins með lækkuðum álögum á einstaka atvinnugreinar. Þetta eru kaldar kveðjur til kvenna á sjálfan kvenréttindadaginn. Starfsgreinasambandið treystir því að fjármálaráðherra finni þrátt fyrir allt leiðir til að hrinda áformunum í framkvæmd svo notuð séu hans orð og það eigi við allar kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana. Þá ber að minna á að samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS eru konur í umönnunarstéttum hjá hinu opinbera meðal þeirra sem lægst hafa launin á íslenskum vinnumarkaði. SGS skorar á ríkisstjórnina að standa við gefin fyrirheit til lægst launuðu stéttanna í landinu.

 

Hamfaraláglaunastefna á íslenskum vinnumarkaði.

Trúnaðarmannaráð Bárunnar,stéttarfélags sem samanstendur af trúnaðarmönnum og stjórn félagsins  fundaði þann 10. júní um stöðu kjarasamninga og hvernig best væri að nálgast þetta stóra verkefni sem framundan er. Kjarasamningar á almennum markaði eru lausir frá og með 30. nóvember og svo í framhaldi af því losna kjarasamningar við sveitarfélög og ríki. Samhljómur og baráttuandi voru helsu einkenni þessa fundar trúnaðarmannaráðs Bárunnar,stéttarfélags og mikill hugur í félagsmönnum að ekkert yrði gefið eftir í komandi samningum.

  1. 1.      Hvað er framundan hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?
  2. 2.      Hvernig getum við komið í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi sem virðist heldur sækja í sig veðrið þrátt fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í vinnustaðaeftirlit?
  3. 3.      Hvernig komumst við út úr þessari láglaunastefnu sem virðist vera óskráð lög?

 Þetta eru áleitnar spurningar sem segja til um hvað helst brennur á félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags.

Töluverð óvissa ríkir meðan beðið er eftir útspili ríkisstjórnarinnar. Á fundinum komu fram áhyggjur og vangaveltur félagsmanna af svartri atvinnustarfsemi sem virðist blómstra sem aldrei fyrr í atvinnugreinum sem eru í mikilli sókn og horft hefur verið til sem gjaldeyrisskapandi iðnaðar. Það er ekkert sem aftrar mönnum í að þiggja „svarta vinnu“. Hvað er hægt að gera? Hvernig eiga fyrirtæki að geta verið í samkeppni meðan ekki er hægt að ná tökum á þessu þjóðarmeini? Þarna er bara hvati til skattfrjálsra launa. Hvar er mótvægisaðgerðin? Hver er refsingin við svartri atvinnustarfsemi? Ef sektin yrði nógu há hvað þá? Ef lágmarkslaun næðu framfærsluviðmiðum myndi þetta þá lagast?

Trúnaðarmannaráð lýsti áhyggjum sínum á þessari hamfaraláglaunastefnu sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Lægstu launin eru einfaldlega allt of lág og hlýtur hver heilvita maður að sjá það. Umræður um kaupmátt voru á þá leið að ekki væru samningar nú merkilegir ef lægstu laun héldu ekki kaupmætti sínum en hver getur lifað af kr. 204.000 þó svo  þau haldi kaupmætti sínum? Svarið er einfalt ekki nokkur lifandi sála. Lágmarkslaun er bara trygging fyrir því ekki megi greiða lægri laun en áðveðið umsamið lágmark í þessu tilfelli kr. 204.000. Vægast sagt taka sérstakar starfsgreinar þetta afar hátíðlega. Það mega allir greiða hærra og sem betur fer gera það margir. En eftir situr þessi tilhneyging að gera ekki betur en þetta.

Hvati til „svartar vinnu“ er til staðar þegar endar ná ekki saman launin einfaldlega duga ekki fyrir skuldbindingum. Ef lágmarkslaun myndu duga til framfærslu,  myndi hvati til „svartrar vinnu“ minnka, hvati til yfirvinnu yrði minni, störfum myndi fjölga, framleiðsla í þjóðfélaginu almennt aukast og betri skil yrðu á opinberum gjöldum til samfélagsins.

 

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags

Frábær fundur með trúnaðarmönnum

Í gærkvöldi var haldinn fundur með stjórn og trúnaðarmönnum Bárunnar, stéttarfélags vegna komandi kjarasamninga.

Á fundinum var farið vítt og breytt yfir stöðuna en megintilgangur fundarins var að finna samhljóm innan félagsins um hvaða stefnu skyldi farið með inn í samninganefnd Starfsgreinasanmbandsins. Greinilegt er að töluverð óvissa var meðal fundarmanna um stöðuna en beðið er eftir útspili ríkisvaldsins í skattamálum meðal annars. Sami skilningur var milli stjórnar og trúnaðarmanna um að ekki væri raunhæft að leggja niður fastar línur fyrr en það lægi ljóst fyrir hvernig málum á alþingi reiddi af. Mikill hugur var í fólki og greinilegt að menn eru tilbúnir í töluvert harðari slag en oft áður.

Lág laun á félagssvæðinu komu mjög til tals og menn sammála um að finna yrði leiðir til að komast upp úr því laglaunaumhverfi sem hér hefur skapast. Öllum fannst það í hæsta máta óeðlilegt að innan fyrirtækja í þeim greinum sem helst gerðu sig út fyrir að vera helsti vaxtabroddur í íslensku efnahagslífi, þætti það eðlilegt að halda launum niðri við hungurmörk og helst neðar. Var svört atvinnustarfsemi nefnd í því sambandi en með sama áframhaldi þá verður til annað hagkerfi sem litlu skilar til starfsmanna og þjóðarbúsins, ef það er þá ekki þegar orðið staðreynd.

Báran hefur nú upp á síðkastið lagt áherslu á að efla trúnaðarmannakerfi sitt. Trúnaðarmenn eru í raun hryggstykkið í starfi hvers verkalýðsfélags og mikilvæg tenging milli hins almenna félagsmannas og forystunnar. Það er því félögunum nauðsynlegt að hafa öfluga trúnaðarmenn á sínum snærum.

Það verður ekki annað sagt en þeir trúnaðarmenn sem nú starfa með félaginu séu kröftugir og tilbúnir til að leggja hönd á plóginn í því eilífðarverkefni að koma kjörum sínum og félaga sinna í það horf að sómi sé að. Félagið vill að endingu hvetja alla sem á annað borð hafa áhuga á stéttar og félagsmálum að gera sig sýnileg og taka þátt í að lyfta samfélaginu á þann stall sem því ber.

Orlofsuppbót

Við viljum minna á orlofsuppbótina sem ber að greiða í dag  miðað við
starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum
sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur
á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu
viku í maí.

 

Orlofsuppbót 2013
Almenni samningur milli SGS og SA    28.700 kr.
Samningur f.h. Ríkissjóðs og SGS   28.700 kr.
Samingur SGS og Launanefndar sveitarf.   38.000 kr.
Samningur SA vegna Sólheima    28.700 kr.
Samningur Dval. og hjúkrun.h. Kumbaravogs   38.000 kr.
Vinnust.samningur Mjólkurbús Flóamanna   28.700 kr.
Bændsamtök Íslands og SGS   28.700 kr.
Landsamband smábátaeigenda og SGS   28.700 kr.
Landsvirkjun og SGS    88.456 kr.

Höfðinglegar gjafir frá stéttarfélögunum

Í gær fimmtudag  heimsóttu þau Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar og Gils Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurlands bókasafn Árborgar og færðu safninu og Héraðsskjalasafni Árnesinga Sögu ASÍ að gjöf fyrir hönd Bárunnar, VMS og Félags iðn og tæknigreina.  Þorsteinn Tryggvi Másson,forstöðumaður héraðsskjalasafnsins,  Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri og Heiðrún Dóra Eyvindardóttir forstöðumaður bókasafnsins tóku á móti gjöfunum. 
O

 Ljósmyndir: Sveitarfélagið Árborg