Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktun formannfundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn þann 18 janúar 2012

Formannafundur SGS samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Formannfundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn þann 18. janúar 2012 lýsir yfir miklum vonbrigðum með vanefndir ríkisstjórnarinnar á loforðum sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga. Aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið við öll ákvæði samninga en það er ólíðandi að kjarasamningar skuli vera í uppnámi vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar. Það er ámælisvert að ríkisstjórnin skuli enn ekki hafa staðið við fyrirheit sín og að íslenskt verkafólk geti ekki treyst yfirlýsingum hennar. Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands  krefst þess að ríkisstjórnin efni loforð sín tafarlaust.

 

Um SGS
Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landsamband almenns og sérhæfðs verkafólks. SGS er stærsta landssamband innan ASÍ, en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.


Aðildarfélög SGS eru nú þessi:
Efling-stéttarfélag, Vlf. Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Vlf. Snæfellinga, Vlf. Vestfirðinga, Vlsfél. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Vlf. Þórshafnar, Afl-Starfsgreinafélag, Vlf. Suðurlands, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Vfl. Grindavíkur, Vlsfél. Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Vlsfl. Sandgerðis og Vlf. Hlíf. 
 

Tekið af heimasíðu SGS

Vegna endurskoðunnar kjarasamninga

Afstaða samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags til uppsagnar á kjarasamningum.

Samninganefnd Bárunnar og Verslunarmannafélag Suðurlands funduðu sameiginlega um afstöðu beggja félaganna til uppsagnar á kjarasamningum. Góð mæting var á fundinn.

Gestur fundarins var Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. Gylfi fór yfir forsendur kjarasamninga og hvernig þær hafa náð fram að ganga. Kjarasamningar voru þríðhliða samkomulag og ljóst þykir að aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið við sinn hluta en vanefndir eru að hálfu stjórnvalda.

 

Líflegar umræður urðu um málið og skiptar skoðanir um hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu sem upp væri komin. Sem sagt svikin loforð stjórnvalda. Fundarmenn lýstu áhyggjum sínum yfir því að ríkisstjórnir almennt séð óháð flokkum gætu gengið að því vísu að svíkja loforð án þess að það hefði í för með sér einhverjar afleiðingar.


Í lok fundar var atkvæðagreiðsla í báðum félögum og niðurstaða samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags var að segja upp samningum.

Formannafundur Starfsgreinasambandsins verður haldinn þann 18.janúar næstkomandi og fer formaður félagins með þessa niðurstöðu á fundinn.

Báran, stéttarfélag er eitt af 13 aðildarfélögum sambandsins sem afhentu umboð til kjarasamningsgerðar til SGS í síðustu samningum og verður niðurstaða hvers félags kynnt og síðan greitt atkvæði um hvort samningum skuli sagt upp.

Svikin loforð

Sameiginlegur fundur samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags og Verslunarmannafélags Suðurlands haldinn á Selfossi 11. janúar 2012 harmar vanefndir ríksstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana sem undirritaðir voru í maí 2011. Á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt á sig mikið erfiði og fórnir til að ná markmiðum samningsins þá hefur ríkisstjórn velferðar, jöfnuðar og lýðræðis svikið mikilvæg loforð í þríhliða samkomulagi milli aðila

Flest loforð um bætt kjör til handa þeim sem minnst bera úr býtum hafa verið svikin og ekkert bólar á fjárfestingum eða aðgerðum sem væntingar voru uppi um við undirskrift samningsins. Atvinnuleysi er viðvarandi og álögur á almenning aukast jafnt og þétt. Ekkert bólar á marglofuðum störfum og ekki er enn farið að vinna að jöfnuði lífeyrisréttinda heldur þvert á móti er hert á snörunni um háls almennu lífeyrissjóðanna.

Fundurinn minnir á að aftur og aftur hefur þessi ríkisstjórn, sem sótti umboð sitt til almennings, svikið loforð sín. Fundarmenn spyrja hvortríkisstjórnin telji sig geta notið trausts í því ljósi?

Fundurinn krefst þess að nú þegar verði farið í þær atvinnuskapandi aðgerðir sem lofað var, svo koma megi atvinnulífinu af stað þannig hér fari að skapast hagvöxtur sem byggir á öðru en að sækja pening í vasa launafólks.

Skrifað undir stofnanasamning við Fangelsið á Litla Hrauni

Báran, stéttarfélag hefur gert stofnanasamning fyrir hönd sinna félagsmanna við fangelsið á Litla Hrauni. Fangelsið hefur nokkra sérstöðu sem vinnustaður og því þótti rétt að gera samning við yfirvöld vegna starfsfólks í mötuneyti. Skrifað var undir samninginn 3. janúar sl.Forsvarsmenn Bárunnar vilja lýsa yfir ánægju sinni með samskipti við yfirmenn fangelsisins á Litla Hrauni og telja þau til fyrirmyndar.

Formannafundur ASÍ – ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir vanefndir

Formenn félaga innan ASÍ komu saman til fundar í morgun til að ræða forsendur kjarasamninga en fyrri endurskoðun kjarasamninganna á að vera lokið 20. janúar. Efnahagslegar forsendur standast ágætlega en þegar kemur að loforðum ríkisstjórnarinnar sem sett voru fram í sérstakri yfirlýsingu 5. maí í tengslum við gerð kjarasamningana stendur varla steinn yfir steini. Hörð gagnrýni kom fram á stjórnvöld á fundinum.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ fór yfir stöðu mála nú sléttum átta mánuðum eftir undirritun kjarasamninganna. Í máli hans kom fram að meginforsenda samninganna hefur staðist, þ.e. kaupmáttur hefur aukist. Há verðbólga er hins vegar áhyggjuefni eins og lítil styrking krónunnar. Spár gera þó ráð fyrir að verðbólga lækki hratt með vorinu. Það kom hins vegar fram í máli Gylfa að sérstakt áhyggjuefni væri það sem snýr að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var gerð í tengslum við kjarasamningana. Þar hallar verulega á stjórnvöld og vissulega tilefni til að segja upp kjarasamningum að mati forseta ASÍ. Ber þar hæst svik um að hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verði í takt við launahækkanir 1. febrúar nk. og skattlagningu á lífeyrissjóði á almennum markaði sem þýðir að óbreyttu skerðingu lífeyris félagsmanna ASÍ.

Það er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að fara í viðræður við ríkisstjórnina á næstu tveimur vikum og fá skýr svör við ýmsum spurningum. Í ræðum allra þeirra sem tóku til máls á fundinum kom fram mikil gremja í garð ríkisstjórnarinnar enda hafa menn ekki gleymt svikum hennar í tengslum við Stöðugleikasáttmálann 2009. Að upplifa viðlíka vanefndir og þá, var fundarmönnum mikil vonbrigði.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Ríkisstjórnin svíkur almennt launafólk

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands samþykkti á fundi sínum þann 12 desember 2011 að mótmæla áformum ríkistjórnarinnar um að skattleggja lífeyrissjóði þar sem slíkt mun leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og auka frekar á þann ójöfnuð sem er á lífeyrisréttindum á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Með þessu svíkur ríkisstjórnin loforð sín frá því við undirritun kjarasamninga í vor um að jafna þessi rétt.

Þá mótmælir framkvæmdastjórn SGS einnig harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að hækka bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga helmingi minna en lægstu laun hækka þrátt fyrir loforð um að lífeyrisþegar og atvinnulausir skuli njóta hliðstæðra kjarabóta.

Ályktunin í heild sinni

Tekið af heimasíðu SGS

Oftast 30-60% verðmunur á jólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í 12 bókabúðum og dagvöruverslunum  víðsvegar um landið sl. þriðjudag. Kannað var verð á 63 bókatitlum sem gefnir hafa verið út á árinu.  Mikill verðmunur var á milli verslana. Hann var í flestum tilvikum 30-60% á hæsta og lægsta verði. Lægsta verðið var oftast að finna í versluninni Bónus eða á 25 titlum af 63,  en sú verslun var einnig með fæsta bókatitla á boðstólum eða aðeins 29 af þeim 63 sem skoðaðir voru. Hæsta verðið var oftast að finna í bókabúðinni Iðu Lækjargötu eða í um helmingi tilvika. Bókabúðin Penninn- Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni.

Bónus var oftast með lægsta verðið á 25 titlum af 63, þar á eftir var Bóksala stúdenta með lægsta verðið á 16 titlum af 63. Iða Lækjagötu var oftast með hæsta verðið í könnuninni á 32 titlum af 63. Bóksala stúdenta og Mál og menning Laugavegi voru með hæsta verðið á 29 titlum af 63.

Mestur verðmunur í könnuninni var á sögubókinni Dauðinn í Dumbshafi, sem var á á 4.193 kr. í Bónus en dýrust var hún í Hagkaup á 6.980 kr. sem er 2.787 kr. verðmunur eða 66%. Þýdda skáldverkið Djöflanýlendan var á lægsta verðinu hjá Nettó á 3.518 kr. en dýrust hjá Máli og menningu á 5.790 kr. sem er 2.272 kr. verðmunur eða 65%. Einnig var mikill verðmunur á matreiðslubókinni, Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu. Hún kostaði 3.241 kr. í Bónus en var dýrust í Hagkaup á 5.199 kr. sem er 1.958 kr. verðmunur eða 60%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á hljóðbókinni, Sólskinsbarn eftir Huldu Ólafsdóttur sem kostaði ýmist 2.490 kr. eða 2.499 kr. þar sem að hún var fáanleg. Mun meiri verðmunur var á ljóðabókinni Ísafjörður ægifagur sem var á lægsta verðinu hjá Office 1 2.039 kr. en dýrust hjá Griffli á 2.207 kr. sem var 8% verðmunur.


Mikill verðmunur á vinsælum titlum

Sem dæmi um mikinn verðmun á vinsælum titlum má nefna að skáldsagan Hjarta mannsins eftir Jón Kalman var ódýrust á 3.699 kr. hjá Krónunni en dýrust á 5.880 kr. hjá A4, verðmunurinn er 2.181 kr. eða 59%. Einnig var mikill verðmunur á Einvíginu eftir Arnald Indriðason sem var ódýrust á 3.794 kr. hjá Bónus en dýrust á 5.990 kr. hjá A4 sem var 58% verðmunur. Bókin Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur var ódýrust á 3.829 kr. hjá Bóksölu stúdenta og dýrust á 5.890 kr. hjá Office 1 sem var 54% verðmunur. Einnig má nefna stelpubókina Stelpur eftir Kristínu Tómasardóttur sem var ódýrust á 3.395 kr. hjá Bónus en dýrust á 4.990 kr. hjá A4, Hagkaupum og Máli og menningu sem er 47% verðmunur.


Mikill munur á vöruúrvali

Af þeim bókatitlum sem könnunin náði til voru flestir þeirra fáanlegir hjá Máli og menningu Laugavegi eða 58 titlar af 63. Hjá Iðu Lækjargötu voru 56 titlar fáanlegir og hjá Bóksölu stúdenta voru 55 titlar fáanlegir. Fæstir titlar í könnuninni voru fáanlegir í Bónus eða aðeins 29 af 63 og hjá Forlaginu Fiskislóð 31 af 63.


Sjá töflu á heimasíðu ASÍ


Penninn – Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum á sama tíma: Máli og menningu Laugavegi, Forlaginu Fiskislóð, Bóksölu stúdenta, Griffli Skeifunni, Office 1 Skeifunni, Nettó Borgarnesi, Hagkaupum Akureyri, Bónus Egilsstöðum, Krónunni Selfossi, A4 Smáratorgi, Iðu Lækjargötu og Samkaupum Úrval Hafnarfirði. Penninn–Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum á þessum árstíma.


Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ

Tekið af heimasíðu ASÍ

Blað Bárunnar, stéttarfélags og VMS er komið út

Þriðja tölublað Eljunnar er komið út. Fjölbreytt efni er í blaðinu að venju, meðal annars er viðtal við Mörtu Kuc trúnaðarmann á Kumbaravogi. Einnig er sagt frá byggingu hafnargarðsins á Eyrarbakka sem byggður var á sjöunda áratug síðustu aldar og vel heppnuðum þingmannafundi sem stéttarfélögin héldu í október.

Ætlar ríkisstjórnin að neyða ASÍ til að segja upp kjarasamningum?

Skömmu fyrir helgi óskaði forysta ASÍ eftir fundi með formönnum stjórnarflokkanna, formönnum þingflokka stjórnarflokkanna og formönnum og varaformönnum Fjárlaganefndar og Efnahags og viðskiptanefndar. Fundað var á  föstudag. Á þessum fundum var ábyrgðarmönnum stjórnarflokkanna gerð grein fyrir þeirra stöðu sem upp gæti komið við endurskoðun kjarasamninga í janúar nk. verði áform ríkisstjórnarinnar um takmarkaða hækkun bóta almannatrygginga og sérstakar álögur á lífeyrissjóðina samþykktar á Alþingi.

Eitt af meginmarkmiðum þeirra kjarasamninga sem gerðir voru milli ASÍ og SA í maí sl. var jöfnun lífeyrisréttinda. Samninganefnd ASÍ taldi sig ná samningi um þrjú mikilvæg og markviss skref í átt til meiri jafnræðis í lífeyrismálum en verið hefur.

Í fyrsta lagi hækkun á mótframlögum atvinnurekenda í áföngum upp að núverandi framlagi ríkisins vegna ríkisstarfsmanna. Í öðru lagi að staðinn verði vörður um lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði með því að bætur almannatrygginga (og atvinnuleysisbóta) hækki með hliðstæðum hætti og hækkun lægstu launa. Í þriðja lagi að fundin verði leið til þess að jafna áunninn lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði upp á við vegna afleiðinga fjármálahrunsins.

Áform ríkisstjórnarinnar um að skerða hækkun bóta almannatrygginga (og atvinnuleysistrygginga) og álögur á lífeyrissjóðina til að fjármagna umboðsmann skuldara, sérstakar vaxtabætur og almenna skattlagningu á launakostnað lífeyrissjóðanna eru klárt brot á þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð kjarasamninga og þeim forsendum sem þeir byggja á. Verði þau að veruleika munu lífeyrissjóðir almenns launafólks þurfa að skerða lífeyrisréttindi sinna sjóðsfélaga og auka þar með enn frekar á þann mun sem á lífeyrisréttindum milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.

En hvers vegna telur ríkisstjórnin að almennt launafólk, einkum það sem verið hefur í aðildarfélögum Alþýðusambandsins og komið er á eftirlaun eða hefur misst starfsgetuna, eigi að greiða þennan reikning? Við því hafa ekki fengist nein svör. Á hinn bóginn setur þessi atlaga Alþýðusambandið óneitanlega í þá stöðu að setja upp sterkar varnir gegn þessum áformum.

Tekið af heimasíðu ASÍ