Við vinnum fyrir þig

Translate to

Verkfallsvarsla

Staðan í verkfallinu er óbreytt, verkfallsverðir félagsins hafa verið á ferðinni bæði í gær og dag.

Þar sem ástæða þykir til hefur verið rætt við stjórnendur fyrirtækja sem flestir hafa brugðist vel við útskýringum og  tilmælum okkar fólks.

Flest fyrirtæki hafa virt verkfallið og fellt niður eða dregið úr starfsemi sinni. Nokkur tilvik hafa þó komið upp þar sem stjórnendur fyrirtækja hafa ekki viljað hlýta leikreglum og þar hefur verið gripið til viðeigandi aðgerða.

Þessi verkfallsdagur fer að verða á enda runninn en ljóst að ef og þegar aðgerðir hefjast að nýju munu verkfallsaðgerðir verða harðari og ákveðnari en verið hefur. Það er fullur ásetningur félagsins að berjast fyrir þessari sjálfsögðu kröfu sem nánast allir, nema forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, virðast telja hófsama og eðlilega.

 

Aðalfundur Bárunnar

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn mánudagskvöldið 18. maí nk. í húsakynnum félagsins að
Austurvegi 56, 3. hæð, Selfossi. Fundurinn hefst kl. 19:00.

Dagskrá
1. Venjuleg aðalfundarstörf.

2. Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs.

3. Breytingar á reglugerð vinnudeilustjóðs.

4. Önnur mál.

Boðið verður upp á veitingar.
Stjórnin.

Næsta lota í verkfalli

Á miðnætti í kvöld hefst önnur lota í boðuðum verkfallsaðgerðum. Þessi lota mun standa til miðnættis 7. maí. Ef félagsmenn Bárunnar, stéttarfélags verða varir við verkfallsbrot eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 480-5000 eða á netfangið baran@baran.is. Verkfallsverðir munu fara um félagssvæðið til að fylgjast með því að verkfallið verði virt. Félagsmenn sem  eru tilbúnir að bjóða sig fram er bent á að hafa samband við Hjalta á skrifstofu Bárunnar í síma 480 5000 eða á netfangið hjalti@tss.is

Almennt um verkfall

Verkfall, tímasetning:

 

30. apríl 2015 var allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.

6. maí 2015

Allsherjarvinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 6. maí).

7. maí 2015

Allsherjarvinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 7. maí).

19. maí 2015

Allsherjarvinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 19. maí).

20. maí 2015

Allsherjarvinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 20. maí).

26. maí 2015

Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.

Hverjir?

Allir félagar sem starfa á félagssvæði Bárunnar, taka laun samkvæmt kjarasamningum SGS og SA og falla ekki undir sérkjarasamninga eru bundnir af niðurstöðu verkfalls. Ef þú ert í vafa hvort þú átt að taka þátt í atkvæðagreiðslu og hugsanlegum verkfallsaðgerðum hafðu þá endilega samband Báruna, stéttarfélag eða Starfsgreinasambandið.

Undanskyldir eru starfsmenn sem starfa eftir:

Kjarasamningi Bárunnar og fjármálaráðherra fh. ríkisjóðs (starfsmenn ríkisstofnana)

Kjarasamningi Bárunnar og Launanefndar sveitarfélaga (starfsmenn sveitarfélaga)

Kjarasamningi Bárunnar og Bændasamtakana (landbúnaðarverkamenn)

Kjarasamningi Bárunnar og Landssambands smábátaeigenda

Kjarasamningi Bárunnar og Landsvirkjunar

Kjarasamningi Bárunnar og Sólheima ses

Kjarasamningi Bárunnar og Kumbaravogs

Um þúsund manns tóku þátt í fyrsta maí hátíðarhöldunum á Selfossi

Maí 2 Maí 3 Maí 4 Maí 5 Maí 6 maí 7 Maí 9 Maí 10Talið er að um eitt þúsund manns hafi tekið þátt í 1. maí hátiðarhöldunum á Selfossi í dag. Kröfuganga var farin frá húsi stéttarfélaganna við Austurveg 56 og gengið að Hótel Selfossi undir lúðrablæstri þar sem hátíðardagskrá fór fram. Ræðumenn dagsins voru Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og Halldóra Íris Magnúsdóttir, formaður nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands. Öðlingarnir,  sönghópur úr Rangárvallasýslu söng nokkur lög og þá kom Lína Langsokkur úr Borgarleikhúsinu og skemmti. Boðið var upp á glæsilegar veitingar í boði stéttarfélganna. Þá var börnum boðið að fara á hestabakk og félagar í Bifreiðaklúbbi Selfoss sýndu fáka sína. Börnin fengu líka blöðrur í tilefni dagsins.

„Þetta var frábær dagur, allt heppnaðist stórkostlega, enda veðrið með allra besta móti og fólk í sólskinskapi“, segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélagsins.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á kröfugöngunni og hátíðarhöldum dagsins.

 

 

1. maí, hátíðarræða Drífu Snædal framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins

Kæru félagar,

Vorsins 2015 verður minnst um langan tíma í verkalýðssögunni. Við stöndum í miðjum átökum, þeim hörðustu sem hafa verið á vinnumarkaði í áratugi. Svona átök spretta ekki upp úr engu og eiga sér langan aðdraganda. Uppskriftin að þeirri samstöðu sem við finnum fyrir og þeim víðtæka stuðningi sem er í samfélaginu við hækkun launa er ekkert sérstaklega flókin. Í uppskriftina fer ósanngjörn skipting auðs og óbilgirni viðsemjenda.

Þegar fótunum var kippt undan samfélaginu okkar árið 2008 fór af stað sú lífseiga saga að við værum öll í sama báti. Það er kjaftæði því við höfum aldrei öll verið í sama báti. Í hruninu misstu sumir lífsafkomu sína en aðrir gátu reddað sér með því að skrá íbúðina sína á eignarhaldsfélag. Sumir komust í uppgrip í skilanefndunum á meðan aðrir þurftu að flytja inn til foreldra sinna á nýjan leik. Við erum ekki og höfum aldrei verið öll í sama báti. Við gerðum okkur hins vegar öll grein fyrir því að staða landsins var erfið og vissum að það væri ekki mikið að sækja í kjarabótum. Þessi staða er gjörbreytt hin allra síðustu ár. Við getum valið hvort við ætlum aftur í ruglið sem var fyrir hrun og kom á endanum niður á lífskjörum okkar eða við getum valið að byggja sanngjarnara þjóðfélag þar sem stefnt er að jöfnuði, velferð og réttlæti! Aðeins þannig er hægt að ræða um stöðugleika, þegar því er náð. Stöðugleiki sem byggir á ósanngjarnri misskiptingu auðs og löskuðu velferðarkerfi er ekki stöðugleiki sem hægt er að sætta sig við.

Það eru ýmsir mælikvarðar til að mæla gott samfélag. Við getum skoðað tækifæri til menntunar, tækifæri til heilbrigðis, aðgang að náttúru og hreinu lofti og svo framvegis. Eitt lykilatriðið í mínum huga og einn helsti mælikvarði á það hvort samfélög séu góð eða ekki eru möguleikar fólks til að framfleyta sér og lifa sómasamlegu lífi. Það er ekki ósanngjörn krafa að geta lifað á 8 stunda vinnudegi – það er mælikvarði á það hvort um lífvænlegt samfélag er að ræða! Þetta eru einmitt kröfur okkar í dag sem alla aðra daga.

Á haustdögum þegar við undirbjuggum kjarasamningana þá settu formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins völdin í hendurnar á félagsmönnum. Hvað viljið þið? Hvað þurfið þið? Hvað eruð þið til í að ganga langt til að styðja við ykkar kröfur?

Skilaboðin frá verkafólki um allt land voru mjög skýr: Við viljum 300 þúsund króna lágmarkslaun og við erum tilbúin til að berjast fyrir því! Með þessa kröfu fóru formennirnir til atvinnurekenda sem að sjálfsögðu höfðu aldrei séð þvílíka kröfuhörku. Orðið sem var oftast notað var Ábyrgðaleysi! Hvað með vextina? Hvað með verðbólguna? Hvað með stöðugleikann?

Verkafólk var ekki ginkeypt fyrir slíkum áróðri enda hafa engir aðrir verið gerðir ábyrgir fyrir vöxtum, verðbólgu og stöðugleika. Þegar hæst launuðu stéttirnar voru hækkaðar um tugi og jafnvel hundruð þúsunda var ekkert rætt um að hér færi allt til fjandans. Ekki heldur þegar 80 milljörðum var stráð yfir samfélagið í skuldaleiðréttingu – aðgerð sem var ekki til að jafna kjörin og var svo sem ekki ætluð til tekjujöfnunar heldur. Þegar verkafólk kemur hins vegar með kröfur um að geta lifað á laununum sínum þá fer allt til fjandans – þvílíkt bull!

Þegar við hófum þessa vegferð vorum við ekki viss hvaða stuðningur væri raunverulega á bak við kröfurnar. Var fólk tilbúið til að fylgja þeim eftir og myndi almenningur styðja okkur?

Í dag – fyrsta maí – get ég viðurkennt að ég hefði ekki látið mig dreyma um stuðninginn og meðbyrinn sem íslenskt verkafólk nýtur. Í atkvæðagreiðslunni um hvort boða ætti verkfall náðum við kosningaþátttöku sem hefur varla sést áður í leynilegum kosningum meðal félagsmanna almennra verkalýðsfélaga. Og niðurstaðan gat varla verið meira afgerandi – 95% sögðu JÁ – við erum tilbúin til að berjast þótt það krefjist fórna!

Þegar stuðningur meðal almennings er mældur þá lýsa yfir 90% landsmanna yfir stuðningi við kröfurnar. Einstakir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa lýst eindregnum stuðningi og meira að segja hafa einstaka fjölmiðlar lýst því yfir að þeir bakki okkur upp. Ég leyfi mér að segja að varla hafi nokkurn tíman verið á lofti jafn skýr krafa um bætt kjör og varla hefur nokkurn tíman verið jafn víðtækur stuðningur við þá kröfu. Við erum á réttri leið!

Það eru forréttindi að fá að starfa með hreyfingu þar sem samstaðan er jafn órofa, þar sem skilaboðin eru jafn skýr og fólk jafn tilbúið til að taka þátt og berjast. Verkalýðshreyfingin er lýðræðisleg hreyfing og tæki fólks til að koma kröfum sínum á framfæri og skipuleggja sig til samstöðu. Þetta hlutverk verkalýðshreyfingarinnar hefur kristallast í vinnu síðustu mánaða. Almennt verkafólk á Íslandi á kröfurnar, á baráttuandann og samstöðuna og hreyfingin er tækið til að fá kröfunum framgengt. Það eru fáir sem segja það í dag að verkalýðshreyfingin sé ekkert annað en sumarbústaðaleiga – hún sannar gildi sitt aftur og aftur.

En verkalýðshreyfingin er ekki sér íslenskt fyrirbæri heldur er hún í eðli sínu alþjóðleg enda hagsmunir launafólks í öllum löndum þeir sömu. Í alþjóðlegum samanburði megum við vera stolt af okkar hreyfingu og þeim árangri sem við höfum náð. Víðsvegar í Evrópu er verið að berjast gegn 20% atvinnuleysi, starfsmannaleigum, endalausum tímabundnum ráðningum, félagslegum undirboðum og svo framvegis. Kúgun verkafólks tekur á sig alls konar grimmar myndir, flestar höfum við náð að uppræta hér á landi. Eitt svakalegasta dæmið eru svokallaðir núlltímasamningar sem fólki víða um álfuna er boðið uppá. Þá er skrifað undir ráðningarsamning án skilgreinds starfshlutfalls og starfsfólk fær einungis greitt fyrir það sem það vinnur. Á morgnana berast SMS um hvort nærveru þinnar sé óskað eða ekki. Þetta er nútímaútgáfan af daglaunamanninum sem mætti niður á höfn á morgnanna í þeirri von að fá eitthvað að gera þann daginn. Sem betur fer erum við laus við slíkt hér á landi og megum við þakka það sterkri verkalýðshreyfingu. Við verðum hins vegar að styðja félaga okkar í öðrum löndum, leita frétta og miðla upplýsingum og stuðningi.

Við búum svo sannarlega við það í dag að vera hluti af alþjóðlegri hreyfingu. Ég hef síðustu tvo daga tekið á móti tugum skeyta víðs vegar að úr heiminum þar sem félagar okkar senda okkur stuðning. Allt frá frændum okkar á Norðurlöndunum til félaga okkar í Suður Ameríku og í Eyjaálfu. Sum skeytanna eru á tungumálum sem ég skil ekki einu sinni en google translate ber okkur fallegar kveðjur sem ylja baráttuandanum. Ómurinn berst um heiminn – á Íslandi er barist fyrir mannsæmandi grunnlaunum og við styðjum skilyrðislaust baráttuna og réttinn til að leggja niður vinnu til að fá kröfunum framgengt.

Kæru félagar,

Ég vil nota tækifærið til að þakka stéttarfélögunum hér á svæðinu fyrir samstarfið og lýsa aðdáun minni á þeirri vinnu sem er hér unnin. Hingað hef ég mætt síðustu ár til að hitta trúnaðarmenn, kíkt í kaffi á skrifstofuna og fengið liðsinni þegar ég var að stíga mín fyrstu spor í launaútreikningum. Ég hef fylgst með störfum hér á vettvangi og veit að hér er unnið bæði með hjartanu og hausnum en þannig er að mínu mati best að vinna. Vera tilbúin til að leggja mikið á sig fyrir þá einstaklinga sem leita aðstoðar, eins og ég veit ótrúleg dæmi um hér á svæðinu, en geta jafnframt lagt kalt mat á hlutina og fundið frjóar lausnir þegar öll sund virðast lokuð. Þetta kæru félagar hafið þið til að bera og ég fylgist af aðdáun með störfum ykkar. Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að ávarpa ykkur. Baráttan er rétt ný hafin og ef við höldum áfram á sömu braut eru okkur allir vegir færir.

Til hamingju með daginn! Berjumst til sigurs!

 

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands

Alþjóðlegur dagur verkalýðsins

Kæru félagar til hamingju með daginn, 1. maí alþjóðlegan dag verkalýðsins. Þessi dagur er hátíðisdagur og minnir mann alltaf á þessa baráttu sem þarf stöðugt að herja fyrir bættum kjörum.Síðustu misseri hafa verið undarlegir tímar í baráttunni. Fyrsti dagur í verkfalli í gær og framundan er mikil óvissa um áframhaldið. Félagsmenn Bárunnar standa vaktina af fullri alvöru og eru reiðubúnir á átök ef með þarf. Þegar verkfall skall á kl. 12:00 á hádegi í gær fóru verkfallsverðir af stað til þess að kanna stöðuna á fyrirtækjum. Almennt voru hlutirnir í lagi en þó einhverjir hnökrar hér og þar sem verður tekið á í næstu lotu. Þessi lota hefur verið nokkuð löng því mikil óánægja hefur verið með stöðuna síðan skrifað var undir kjarasamninga þann 21. des 2013. Það er mikill og góður stuðningur við okkar kröfur bæði hérlendis og erlendis. Krafan um 300 þúsund lágmarkslaun innan þriggja ára talar sínu máli og er bæði hógvær og réttlát. Mikilvægast er á svona tímum er samstaðan og samtakamátturinn. Félagsmenn Bárunnar, stéttarfélags og starfsmenn eru óþreyttir til verka og sem formaður í félaginu er ég afar þakklát fyrir þennan góða hóp sem stendur sem ein heild þegar á reynir. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að halda daginn hátíðlegan með okkar.


Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

Verkfallsvarsla

Í dag hefst fyrsta lota í verkfallsaðgerðum stéttarfélaganna á landsbyggðinni. Rétt að árétta nokkra hluti til glöggvunar þeim sem málið varðar.

Einungis þeir sem taka laun eftir almenna samningnum og hótel og veitingahúsasamningnum svokallaða, það er starfsfólk í þjónustustörfum, byggingariðnaði, veitingahúsum, hótelum, bílstjórar, ferðaþjónustu, matvælaiðnaði og svo mætti áfram telja, eru að fara í verkfall.Þeir sem vinna eftir öðrum samningum fara ekki í verkfall að sinni.

Við finnum ekki annað en atvinnurekendur flestir ætli að hlýta þeim lögum og reglum sem gilda við aðstæður sem þessar. Við biðjum hinsvegar félagsmenn að tilkynna til okkar tafarlaust ef þeir telja sig verða vara við verkfallsbrot. Verkfallsverðir munu verða á ferðinni og fylgjast með og skrá niður og bregðast við ef þurfa þykir. Hafa skal samband við Hjalta í s. 480 5015 eða 844 7660

Félagsmenn eru hvattir til að leggja okkur lið og mæta til verkfallsvörslu ef óskað er eftir. Birt verður hvatning hér og á Facebook síðu félagsins ef þurfa þykir en í dag lítur út fyrir að nægur mannskapur mæti.

Við hvetjum félagsmenn til að vera á varðbergi fyrir brotum og hringja til að fá upplýsingar ef menn eru í vafa.
Hafið góðan dag og að endingu minnum við á 1.maí gönguna á morgun. Hún hefst klukkan 11:00 við Austurveg 56, hús stéttarfélaganna og enda við Hótel Selfoss þar sem verður hátíðardagskrá.

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að mæta og sýna samstöðuna í verki

9 af hverjum 10 styðja kröfuna um 300 þúsund krónur á mánuði

Lágmarkslaun ættu að vera 329.000 kr. að mati landsmanna

91,6% landsmanna eru hlynnt kröfum Starfsgreinasambands Íslands (SGS) um að hækka lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði í 300.000 krónur á mánuði miðað við fullt starf, innan þriggja ára. Aðeins 4,2% eru andvíg kröfunni. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar Gallup.

Fólk var einnig spurt að því hver lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði ættu að vera miðað við fullt starf og er niðurstaðan 329 þúsund krónur að meðaltali. Kröfur SGS, sem hyggst hrinda af stað fyrstu verkfallsaðgerðum sínum á morgun fimmtudag, ef ekki semst áður, virðast njóta breiðs og víðtæks stuðnings í samfélaginu. Athygli vekur að stuðningur við kröfurnar er örlítið meiri hjá konum en körlum og sömuleiðis nefna konur hærri tölu að meðaltali þegar spurt er hver lágmarkslaun ættu að vera. Enginn marktækur munur er hins vegar á svörum fólks eftir því hvort það býr á landsbyggðinni eða í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Sömuleiðis er ekki marktækur munur milli tekjuhópa þegar stuðningur við 300 þúsund króna kröfuna er skoðaður.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá á í viðhengi.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS: „Þessar niðurstöður staðfesta þann meðbyr sem við höfum fundið í samfélaginu. Það er kominn tími til þess að lágmarkslaun dugi fyrir framfærslu og almenningur tekur undir með okkur í þeirri sjálfsögðu kröfu. Það er ánægjulegt að fá staðfestingu á því að við séum á réttri leið og svona afgerandi stuðningur gefur okkur byr undir báða vængi í þeim átökum sem framundan eru. Samtök atvinnulífsins verða að hlýða á kröfur okkar og samfélagsins alls. Það er í þeirra valdi að afstýra erfiðum og langdregnum átökum.“