Við vinnum fyrir þig

Translate to

Orlofshús Bárunnar um páska 2015

Báran auglýsir orlofshús félagsins á Flúðum og á Akureyri laus til umsókna fyrir páskavikuna 1. – 8. apríl 2015.

Umsóknarfrestur er til 16. febrúar nk. Hægt er að sækja um í tölvupósti baran@baran.is eða í gegnum síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna 480-5000. Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir 20. febrúar nk. Öllum umsóknum verður svarað skriflega.

 

Verð á vikudvöl er í Þverlág er kr. 15.000,-

                              & á Akureyri kr. 15.000,-  

 

(Leigutímabil er frá miðvikudegi til miðvikudags).

 

 

Pomoc w języku polskim

Związki Zawodowe Báran oferują swoim związkowcom darmową  pomoc w języku polskim w sprawach związanych z prawem pracy i umowami zbiorowymi. Możliwe także będzie uzyskanie informacji na temat funduszu zdrowotnego, edukacyjnego itp.

Informacje w języku polskim będzie można uzyskać po wcześniejszym umuwieniu się na spotkanie w biurze Związków Zawodowych Austurvegi 56, Selfoss, pod numerem telefonu 480-5000 lub  tel.865-7008 (Marta Kuc).

Następne spotkanie bedzię 20 lutego 2015r.

 

Báran, Stéttarfélag býður upp á aðstoð á pólsku fyrir félagsmenn. Marta Katarzyna Kuc pólskumælandi mun verða til viðtals á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56, Selfossi, einu sinni í mánuði. Veittar eru  upplýsingar um vinnurétti og kjarasamninga og. Einnig  geta félagsmenn fengið upplýsingar um menntunasjóð, sjúkrasjóð og fl. Viðtölin eru félagsmönnum að kostnaðarlausu. Hægt er að panta tíma hjá Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi í síma 480-5000 eða hjá Mörtu Kuc í síma 865-7008.

Næsta viðtal verður 20. febrúar nk.

 

Af­henda SA kröfu­gerð í dag

Starfs­greina­sam­band Íslands mun í dag af­henda Sam­tök­um At­vinnu­lífs­ins kröfu­gerð vegna end­ur­nýj­un­ar kjara­samn­inga á hinum al­menna vinnu­markaði, en samn­ing­arn­ir renna út í lok fe­brú­ar. Fund­ur­inn fer fram í húsa­kynn­um rík­is­sátta­semj­ara í Höfðaborg kl. 15 og verða kröf­urn­ar gerðar op­in­ber­ar eft­ir þann fund.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Starfs­greina­sam­band­inu.

Matarkarfa ASÍ hækkar minnst í versluninni Kjarval

Fyrstu niðurstöður um áhrif breytinga á neyslusköttum á verðlag matvara gefa skýra vísbendingu um að hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts hafi þegar skilað sér að fullu út í verðlag en í flestum verslunum séu áhrif af afnámi vörugjalda enn mjög takmörkuð.

Matvara hefur hækkað umtalsvert í verði undanfarinn mánuð samkvæmt fyrstu niðurstöðum úr verðmælingum verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum í kjölfar breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum. Um áramót hækkaði á virðisaukaskattur á matvörur úr 7% í 11% auk þess sem vörugjöld (s.k. sykurskattur) voru afnumin af sykri og sætum matvörum.

Mest hækkar matvörukarfan í versluninni Víði um 5,2% frá því í lok nóvember sl. sem er umtalsvert meiri hækkun en neysluskattsbreytingarnar um áramót gefa tilefni til.

Að mati verðlagseftirlits ASÍ má áætla að breytingarnar gefi í heildina tilefni til u.þ.b. 1,5% hækkunar á matarkörfunni.

Matarkarfa ASÍ hækkar minnst í versluninni Kjarval um 0,7% frá því í síðustu mælingu.

Í Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrval, Samakaupum-Strax, Kaskó, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kaupfélagi Vestur Húnvetninga hefur matarkarfan hækkað um u.þ.b. 2,5% – 3,5% frá því í lok nóvember.

Í verslunum Bónuss, Krónunnar og Tíu-ellefu nemur hækkun matkörfunnar 1% -1,7%.

Matarkarfa ASÍ jan 15

 

Samanburðurinn nær til verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum í byrjun desember 2014 og í annarri viku janúarmánaðar 2015.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði matvörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Matvörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, og safa. Við samsetningu vörukörfunnar eru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af matarkörfu meðalheimilis.

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni , Samkaupum-Úrvali, Víði, 10-11 og Samkaupum-Strax, Kjarval, Kaskó, Kaupfélagi Skagafjarðar og Kaupfélagi Vestur Húnvetninga.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga en ekki er um beinan verðsamanburð að ræða,  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Samninganefnd Bárunnar stéttarfélags fagnar skilningi ráðamanna

Samninganefnd Bárunnar stéttarfélags á Suðurlandi fagnar orðum félagsmálaráðherra um að svigrúm sé umtalsvert til hækkunar lægstu launa. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins, sem samþykkt var á fundi þess í gærkvöldi.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði í Síðdegisútvarpi Rásar 2 fyrir helgi að verkalýðshreyfingin hljóti að sækja um meira en þau þrjú prósent sem atvinnurekendur hafi talað um í tengslum við gerð nýs kjarasamning almenns launafólks. Hún benti meðal annars á lækkun skatta og góða afkomu útflutningsgreinanna.

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags segir að samninganefnd félagsins fagni þessum orðum ráðherrans.

„Já, það gerum við. Í ályktun samninganefndarinnar er lýst yfir ánægju með að kveðinn skuli nýr tónn í þeim samningum sem gengið hefur verið frá að undanförnu. Starfsgreinasambandið er að leggja lokahönd á kröfugerð aldildarfélaga sambandsins. Samninganefndinni þótti þess vegna nauðsynlegt að undirstrika sérstaklega orð félagsmálaráðherra,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir.

„Sýnilegur vilji er til að bæta kaup og kjör almenns launafólks. Fundurinn hvetur atvinnurekendur til að leggjast á árarnar með launþegasamtökum og ríki að binda enda á þá dæmalausu láglaunastefnu sem rekin er.  Sú stefna hefur runnið sitt skeið á enda með undangengnum samningum við ýmsa hópa. Formaður Samtaka atvinnulífsins hefur gengið fram fyrir skjöldu og gert ásættanlega kjarasamninga við flugmenn Icelandair og telur fundurinn það til fyrirmyndar,“ segir í ályktun samninganefndar Bárunnar stéttarfélags.

IMG_3228

Fundur samninganefndar Bárunnar stéttarfélags fagnar skilningi ráðamanna

Fundur samninganefndar Bárunnar stéttarfélags haldinn á Selfossi 19. janúar 2015 ályktar eftirfarandi:

Fundurinn fagnar orðum ráðherra ríkisstjórnarinnar um að svigrúm sé umtalsvert til hækkunar lægstu launa.

Samninganefnd Bárunnar lýsir ánægju með að kveða skuli við nýjan tón í þeim samningum sem gengið hefur verið frá undanfarið. Sýnilegur vilji er til að bæta kaup og kjör almenns launafólks. Fundurinn hvetur atvinnurekendur til að leggjast á árarnar með launþegasamtökum og ríki að binda enda á þá dæmalausu láglaunastefnu sem rekin er.  Sú stefna hefur runnið sitt skeið á enda með undangengnum samningum við ýmsa hópa. Formaður Samtaka atvinnulífsins hefur gengið fram fyrir skjöldu og gert ásættanlega kjarasamninga við flugmenn Icelandair og telur fundurinn það til fyrirmyndar.

Formaður Bárunnar í Sunnlenska Fréttablaðinu

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar Stéttarfélags var í viðtali í Sunnlenska Fréttablaðinu, sem kom út 15. janúar og svaraði þar nokkrum spurningum blaðamanns. Hér má sjá viðtalið í heild sinni.

 

Hvernig líst þér á væntanlega kjarasamningsviðræður stéttarfélaganna og hvernig sérðu fyrir þér að þær munu þróast?

 

„Framundan er mikill óvissutími. Markmið síðustu samninga var að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi og aukinn kaupmátt til framtíðar.  Kjarasamningurinn fól í sér ákveðið samkomulag um að mótuð hafði verið sameiginleg og samræmd launastefna gagnvart þeim samningum sem enn voru ógerðir á samningssviði aðila. Samningsaðilar skuldbundu sig til þess að framfylgja framangreindri launastefnu á árinu 2014. Í samkomulaginu fólst einnig að menn beittu sér fyrir verðstöðugleika og aðhaldi í verðlagsmálum svo eitthvað sé nefnt.  Nú er staðan sú að í framhaldinu voru gerðir kjarasamningar sem fela í sér heldur ríflegri launahækkanir heldur en samkomulagið kvað á um. Ríki og sveitarfélag hafa hækkað gjaldskrár og ekki er lát á því. Matarkarfan hefur hækkað. Í ljósi þessa að þeir einu sem þurftu að axla ábyrg á stöðugleikanum var láglaunafólkið sem fékk 8.000 – 9.750 í hækkun. Þetta hljómar kunnuglega og ekki til þess fallið að greiða fyrir næstu kjarasamningum. Í dag sé ég ekki hvernig við getum sest að samningaborðinu nema við fáum töluverðar leiðréttingar áður en við förum að tala um kauphækkanir“, segir Halldóra.

 

Verður þetta erfiður vetur hvað varðar kjarasamninga og áttu jafnvel von á einhverjum verkföllum ?

 

„Já, Þetta verður erfiður vetur því það þarf að byggja upp traust okkar fólki til handa. Verkalýðshreyfingunni er mjög misboðið hvernig staðið hefur verið að málum í framhaldi af síðustu kjarasamningsgerð. Okkar fólk var tilbúið að fella samningana síðast. Þegar kemur að ákvörðun um verkföll er það spurningin fyrir hverju erum við tilbúin til að berjast og hverning við gerum það. Við erum að vígbúast og skoða þessi mál núna“.

 

 

Munuð þið líta á kjarasamninga lækna og kennara sl. vor þegar nýir samningar verða gerðir ?

 

„Að sjálfsögðu erum við að horfa á aðra samninga. Kennarar sögðu strax í síðustu lotu að þeir sættu sig ekki við 2,8% launahækkun, það lá alveg ljóst fyrir að þeir ætluðu ekki að vera með í þeirri vegferð. Þessi samræmda launastefna og það samkomulag sem gert var á vinnumarkaði hélt ekki og það voru komnir brestir í það þegar skrifað var undir almenna kjarasamninga þann 21. des. 2013. Kennarar héldu saman og gáfu ekkert eftir. Samtakamátturinn er sterkt afl og sýnir árangur þeirra í kjarasamningum“, segir Halldóra.

 

 

Hvernig er staðan hjá Bárunni, eru þínir félagsmenn illa settir hvaða varðar laun og þurfa nauðsynlega á launahækkunum á að halda ?

 

„Hér í okkar samfélagi er töluvert um taxtalaun. Algengustu mánaðarlaun í okkar umhverfi miðað við dagvinnu eru á bilinu 201.317 – 229.798. Þegar við spyrjum félagsmenn þessarar spurningar „hvað þurfa launin að hækka“ þá er svarið að launin þyrftu að vera 350.000 – 400.000. (niðurstöður kjaraþings í sept. 2014). Þetta eru ekki mikil vísindi við vitum öll að það lifir enginn af lægri tekjum en þessum“.

 

 

Hvernig leggst annars nýtt ár í þig sem formann Bárunnar og þína félagsmenn ?

 

„Hvert ár er ný áskorun og ég held að árið 2015 gefi ekki öðrum eftir miðað við þau verkefni sem framundan eru. Við getum verið nokkuð sátt  hjá Bárunni, stéttarfélagi, félagsmönnum fjölgar og nú erum við orðin fleiri en við vorum árið 2007 sem var algjört metár. Okkur hefur tekist að fá góðan kjarna félagsmanna til starfa hjá félaginu. Við höfum verið í góðu samstarfi við önnur félög sem rennir stoðum undir starfsemi okkar og vonandi leiðir til sterkari verkalýðshreyfingar á Suðurlandi“.

 

 

Hvernig er atvinnuástandið innan Bárunnar og er eitthvað nýtt að gerast í atvinnumálum á svæðinu ?

 

„Atvinnuástandið er í þokkalegum málum en því miður get ég ekki séð þann uppgang sem ég hefði viljað sjá. Ég hefði viljað sjá einhverja sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélaganna á svæðinu varðandi atvinnuuppbyggingu. Fjölgun félagsmanna í Bárunni, stéttarfélagi er í ferðaþjónustunni,  þar er sjáanlega mikil aukning og vaxtabroddur.  Skipting eftir atvinnugreinum í félaginu hefur breyst. Það eru 40% félagsmanna í ferðaþjónustu og  30% í matvælaiðnaði. Bygginga og mannvirkjagerð eru 8% en var fyrir hrun töluvert stærra hlutfall að félagsmönnum“, segir Halldóra.

 

 

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri á þessum tímapunkti ?

 

„Já, Íslenskt samfélag þarf að fara í ákveðna naflaskoðun. Það þarf að skoða heildarmyndina hjá okkur. Við erum með langan vinnutíma, of lág laun og þar af leiðandi töluverða aukningu á örorku vegna vinnuálags. Langur vinnutími kemur meðal annars fram í meira álagi á fjölskyldulíf, minni framleiðni fyrirtækja sem gefur minna svigrúm til launahækkana“, segir formaður Bárunnar.

M.H.H.

 

Verum á verði!

Alþýðusambandið hvetur neytendur til að vera vel á verði í upphafi nýs árs og fylgjast með verðbreytingum á vörum og þjónustu. Á ábendingasíðunni www.vertuaverdi.is má með auðveldum hætti koma á framfæri upplýsingum um verðbreytingar sem neytendur verða áskynja.

Breytingar á lögum um virðisaukaskatt og almenn vörugjöld sem tóku gildi í upphafi árs hafa áhrif á verðlag á allflestum vörum og þjónustuliðum. Það er því mikilvægt að sýna söluaðilum aðhald svo tilætlaðar lækkanir skili sér eins og vera ber til neytenda og hækkanir verði ekki umfram það sem tilefni er til.

Báran stéttarfélag undirbýr launakröfur

Stjórn Bárunnar-stéttarfélags á Selfossi ákvað í gær að kalla  samninganefnd félagsins til fundar næstkomandi mánudag, þar sem kröfugerð félagsins verður ákveðin. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar segir að stjórn félagsins og trúnaðarmenn myndi í sameiningu kjararáð.

„Í september efndum við til kjaraþings, þar sem grunnurinn að kröfum félagsins í kjaramálum var lagður. Fundurinn á mánudaginn mun því eðlilega taka mið af áherslum kjaraþingsins, sem var í alla staði vel heppnað. Strax í kjölfar fundarins á mánudaginn verður fullmótuð kröfugerð félagsins send Starfsgreinasambandi Íslands, sem svo leggur fram kröfugerð aðildarfélaga sinna.“

Halldóra Sigríður býst við hörðum kjaraviðræðum, viðhorf atvinnurekenda bendi ótvírætt til þess.

„Ég sé ekki fyrir mér hvernig launþegasamtökin geta staðið upp frá samningaborðinu, nema fá ákveðnar launahækkanir, umfram þær tölur sem Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir. Vinnuveitendur tala um „hóflegar“ hækkanir, en við sjáum nýlega samninga við einstaka greinar, það gengur ekki að láta almennt launafólk sitja eftir. Seðlabankastjóri hefur talað á svipuðum nótum og vinnuveitendur, en ég bendi á að hann situr ekki við samningaborðið. Rík samstaða kennara og lækna skilaði verulegum hækkunum og ég er viss um að samstaða innan okkar raða kemur til með að þrýsta á um réttláta niðurstöðu,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar-stéttarfélags.

Fréttatilkynning/KEP