Við vinnum fyrir þig

Translate to

Er vinnuveitandi þinn rétti aðilinn til að passa upp á réttindi þín?

Kæri launþegi. Já, ég er að skrifa til þín sem þiggur laun frá öðrum en sjálfum þér.

Hvað fyndist þér um það ef atvinnurekandinn þinn gerði kröfu um að þú kysir ákveðinn stjórnmálaflokk? Eða gerði það að kröfu að þú framvísaðir ákveðnu flokksskírteini þegar þú sæktir um vinnu hjá honum? Styddir ákveðið íþróttafélag eða verslaðir bara í ákveðinni verslun? Hann léti jafnvel í það skína að það gæti komið sér illa fyrir þig að samþykkja ekki þessar kröfur. Myndir þú sætta þig við það?

Tæplega, enda vandséð að sú staða gæti komið upp í dag. Það er löngu liðin tíð, ekki satt? Fæst viljum við láta ráðskast með okkur á þennan hátt. Við viljum hafa frelsi til að taka þessar ákvarðanir sjálf á okkar eigin forsendum. Það er hinn eðlilegi gangur í lýðræðissamfélagi.

En hvað ef atvinnurekandi þinn vill ráða því í hvaða stéttarfélag þú greiðir? Er það í lagi? Hvað finnst þér um það?

Skoðum það aðeins.

Nokkuð hefur borið á því meðal fyrirtækja á félagssvæðum félaganna að ýmist er hótað eða reynt að flytja starfsmenn yfir í stéttafélög sem ekki hafa samningsumboð á svæðinu. Slíkt kemur í flestum tilvikum upp í kjölfar afskipta stéttarfélaganna af kjaramálum starfsmanna. Tilgangurinn er aðeins einn; að losna við afskipti viðkomandi stéttarfélags. Stéttarfélög hafa þær lögboðnu skyldur að gæta að og fylgja því eftir að kjarasamningar séu virtir. Það er hinsvegar afstaða sumra atvinnurekenda að með afskiptum sínum séu stéttarfélögin að hafa afskipti af rekstri fyrirtækjanna. Það eru í það minnsta rökin sem við starfsmenn stéttarfélaganna að fáum að heyra. Að telja samningsbrot eðlilegan þátt í rekstri fyrirtækis hlýtur að teljast einkennileg afstaða.

Bara svo því sé haldið til haga; atvinnurekanda er það óheimilt að taka svona ákvörðun fyrir hönd starfsmanna sinna. Við getum gengið svo langt að segja að það sé ekki mál atvinnurekandans hverjum launþeginn treystir best til að gæta hagsmuna sinna. Og líka þetta:  Ekki er heimilt að greiða til stéttarfélags sem ekki hefur samningsumboð á viðkomandi svæði. Svo einfalt er það. Það má til dæmis nefna að VR hefur ekki samningsumboð á félagssvæði Verslunarmannafélags Suðurlands frekar en Verslunarmannafélag Suðurlands geti gert samninga fyrir hönd félagsmanna VR. Efling, stéttarfélag hefur ekki samningsrétt á félagssvæði Bárunnar og svo framvegis.

Í lögum félaganna er skýrt kveðið á um hvað telst félagssvæði stéttarfélags og hvaða skyldur og réttindi fylgja í þeim efnum. Atvinnurekendur eru ekki undanþegnir því að hlýta lögum, frekar en aðrir. Við hvetjum atvinnurekendur og launþega sem eru að velta þessum málum fyrir sér að kynna sér  lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og að kynna sér í framhaldinu hvaða stéttarfélög hafa samningsumboð á svæðinu. Það er yfirleitt fyrsta greinin í félagslögunum.

Þetta getur valdið launþeganum töluverðum skaða. Launþegi sem fluttur er milli félaga getur tapað áunnum réttindum úr sjóðum félaganna og getur einnig lent í því að það er enginn sem hefur heimild til að vinna fyrir hann eða reka mál fyrir hans hönd ef upp kemur ágreiningur um laun eða kjör. Launþeginn situr uppi með tapið ef á honum er brotið en launagreiðandinn kemst upp með að brjóta á viðkomandi. Og fleirum í sömu stöðu. Taktu afstöðu félagi og láttu ekki snuða þig um það sem þú hefur rétt til.

Samið við sveitarfélögin

Þann 1. júlí sl. undirritaði Starfsgreinasamband Íslands samninga við Samband Íslenskra sveitarfélaga í  fyrir hönd aðildarfélaga sinna m.a. Bárunnar stéttarfélags.

Samningurinn gildir frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015 og koma launahækkanir í tveimur skrefum þannig að fyrsta hækkun gildir frá 1. maí 2014 og síðan verða aftur breytingar á launatöflu um áramótin 2014/2015. Breytingar voru gerðar á tengitöflu og launatöflu þannig að misjafnt er hvernig hækkanirnar koma út hjá einstaka starfsfólki en krónutöluhækkanirnar á tímabilinu eru frá tæplega 10.000 krónum upp í 28.000 krónur á mánuði. Til að dreifa hækkuninni með sem sanngjörnustum hætti var starfsmatinu breytt þannig að færri stig þarf nú til að hækka um launaflokk. Kynningarefni með dæmum verður sent von bráðar á félagsmenn. Desemberuppbót hækkar um 15,9%, og verður á árinu 93.500 krónur og framlag sveitarfélaganna í starfsmenntunarsjóði hækkar einnig um 0,1% eins og í öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á árinu.

Ákveðið var að halda sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu og skal henni lokið fyrir 22. júlí næstkomandi. Félagar fá sent heim kynningaefni og lykilorð vegna hennar.

Samninginn í heild sinni má nálgast hér.

 
 

Vörukarfan lækkar í verði hjá þremur verslunum

Vörukarfa ASÍ hefur lækkað hjá Bónus, Hagkaupum og Tíu-ellefu á milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í apríl og júní. Á þessu tæplega þriggja mánaða tímabili hækkaði vörkarfan hins vegar í verði hjá Krónunni, Nettó, Iceland, Nóatúni, Samkaupum-Úrvali, Samkaupum-Strax og Víði.

Mesta hækkunin er hjá Samkaupum-Strax um 1,4%. Miklar verðsveiflur eru í öllum vöruflokkum hjá öllum verslunum en mesta hækkunin er í sælgæti hjá Bónus um 6% og mesta lækkunin er í kjötvörum hjá Víði um 8,6%.

Sjá könnunina í frétt á heimasíðu ASÍ

 

Eljan

Eljan er komin út og í þessu fyrsta tölublaði ársins er víða komið við.  Árlega berast margar ábendingar um brot á kjarasamningum starfsfólks í ferðaþjónustu og þá sérstaklega yfir sumartímann. Í blaðinu eru leiðbeiningar til sumarstarfsmanna þar sem farið er yfir algeng kjarasamningsbrot.  Einnig eru þrjár greinar um símenntunarmál á Suðurlandi. Meðal annars viðtal við Heimi Bates sem fór í raunfærnimat hjá Fræðsluneti Suðurlands. Gils Einarsson tók saman stutt ágrip af sögu Kaupfélaganna á Suðurlandi.  Aftast í blaðinu er sagt frá afsláttarkjörum fyrir félagsmenn.  Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í blaðinu hægra megin á heimasíðunni.

Kjarasamningur við Sólheima

Talin hafa verið atkvæði vegna samkomulags um breytingar og framlenginu á kjarasamningi milli Bárunnar, stéttarfélag og Sólheima ses.

Niðurstaðan er sem hér segir:

Já sögðu 4 eða 66,7%

Nei sögðu 2 eða  33,3%

Auðir eða ógildir 0

Samningurinn er því samþykktur og gildir til 30. apríl 2015.

 

SGS vekur ungt fólk til umhugsunar um réttindamál

Um þessar mundir stendur Starfsgreinasamband Íslands fyrir átaki undir yfirskriftinni „Þekkir þú þinn rétt?“. Tilgangurinn með átakinu er að vekja unga einstaklinga, sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum í sumar, til umhugsunar um réttindi sín á vinnumarkaði, en því miður er raunin oft sú að unga fólkið er illa að sér um réttindi sín og skyldur.

Stéttarfélög um allt land hafa orðið vör við að ungt fólk sé látið vinna svokallaða „prufudaga“ án launa, þá er jafnaðarkaup ennþá töluvert algengt og sömuleiðis gerviverktaka. Nauðsynlegt er að fólk þekki rétt sinn og skyldur varðandi vinnutíma og að ekki er hægt að kalla til fólk á vaktir og senda það heim fyrirvaralaust án launa eins og vill brenna við.

Þetta eru nokkur dæmi um það sem Starfsgreinasambandið telur tilefni til að minna ungt fólk á að varast þegar það stígur sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Í viðhengjum á heimasíðu SGS, www.sgs.is  er að finna grunnupplýsingar um það sem ungt fólk þarf að vita þegar það tekur í fyrsta sinn þátt á vinnumarkaðnum.

 

Fésbókarsíðan „Vinnan mín“ external link icon

Ertu búin(n) að fá vinnu í sumar?

Nú er ráðningum í sumarstörf að ljúka. Unga fólkið streymir út á vinnumarkaðinn til að vinna sér inn aur og létta, tímabundið, álaginu á veski foreldra og ættingja.

Reynslan sýnir okkur að unga fólkið veltir því sjaldan fyrir sér hvort verið sé að greiða eftir kjarasamningum. Ánægjan yfir því að fá vinnu er flestu öðru. Einnig skortir oftast þekkingu á þeim réttindum og skyldum sem fylgja vinnunni. Af því tilefni viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

Það er ein meginregla í gangi samkvæmt lögum og kjarasamningum:

 Ekki má greiða laun eða bjóða upp á kjör sem eru undir gildandi kjarasamning hverju sinni.

Gæta skal að því að kaup og kjör standist kjarasamning að lágmarki. Annað er lögbrot. Það er líka óleyfilegt að semja sig niður fyrir samninginn, þrátt fyrir að báðir aðilar séu sáttir. Þetta er mjög mikilvægt.

Það er ekkert í kjarasamningum sem heitir jafnaðarkaup.

Það er góð regla að þegar boðið er upp á eina krónutölu fyrir unna klukkustund þá liggi það fyrir hvað er lagt til grundvallar þegar þessi tala er fundin út. Hvað er innifalið í þessari tölu? Hver er vinnutíminn, í hverju felst vinnan? Algengt er, að þegar fólk sættir sig við jafnaðarkaup þá er það um leið að taka á sig launalækkun.

Það er kallað að vinna svart þegar laun eru þegin án þess að þeim fylgi launaseðill og greitt sé til samfélagsins það sem lög segja til um.

 Ef launþegi samþykkir, eða fer fram á að vinna svart þá er hann ekki bara að brjóta lög heldur er hann um leið að afsala sér mikilvægum réttindum. Hann á ekki veikindarétt, hefur ekki uppsagnarfrest, er ekki slysatryggður, á engan rétt til orlofs og ávinnur sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Rísi ágreiningur við vinnuveitanda er hann alltaf í lakari stöðu en atvinnurekandinn. Vinnuveitandinn getur leyst ágreininginn á þann einfalda hátt að reka þann sem er óánægður og sá óánægði hefur enga leið til að leita réttar síns.

Það er óheimilt að láta fólk vinna launalaust á svokölluðum reynslutíma.

Vinna getur aldrei verið launalaus, jafnvel þó fólk sé tekið inn til reynslu. Mörg dæmi eru um að fólk hafi skilað upp í viku vinnu án þess að fá laun.

Ef þú ert í einhverjum vafa um kaup eða kjör hafðu þá samband við stéttarfélagið þitt og fáðu úr því skorið hvort rétt er staðið að málum.