Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nýr framkvæmdastjóri hjá Starfsgreinasambandi Íslands

Drífa Snædal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og tekur til starfa 17. september næstkomandi. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Kristján Bragason starfar við hlið Drífu til áramóta. Drífa hefur nýlokið meistaragráðu í vinnurétti frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð en er einnig menntuð tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf. Drífa hefur látið sig málefni vinnumarkaðarins varða bæði í gegnum Iðnnemasamband Íslands á árum áður og í gegnum nám sitt. Í lokaverkefni sínu í viðskiptafræði fjallaði Drífa um kjarasamningagerð og launamun kynjanna en meistararitgerðin fjallaði um lagaumhverfi starfa sem unnin eru inni á heimilum. Þá hafa jafnréttismál verið henni hugleikin og hefur hún skrifað fjölmargar greinar og pistla á því sviði. Drífa er búsett í Reykjavík ásamt dóttur sinni.

Um SGS

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landsamband almenns og sérhæfðs verkafólks. SGS er stærsta landssamband innan ASÍ, en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.

Aðildarfélög SGS eru þessi:

Báran stéttarfélag,  Efling-stéttarfélag, Vlf. Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Vlf. Snæfellinga, Vlf. Vestfirðinga, Vlsfél. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Vlf. Þórshafnar, Afl-Starfsgreinafélag, Vlf. Suðurlands, Drífandi stéttarfélag, Vfl. Grindavíkur, Vlsfél. Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Vlsfl. Sandgerðis og Vlf. Hlíf.

 

 

Samantekt á raforkuverði til heimila

Raforkukostnaður hjá heimilum landsins hefur hækkað mikið frá því í ágúst 2011. Mest er hækkunin hjá viðskiptavinum Rarik dreifbýli/Orkusalan, en heildar raforkukostnaður þeirrra hefur hækkað um 8,6% m.v. 4.000 kWst. notkun á ári. Minnst er hækkunin hjá heimilum á svæði Norðurorku/Fallorku eða um 2,7% fyrir sömu notkun.

Allar dreifiveiturnar hafa hækkað gjaldskrána. Mesta hækkunin var hjá Rafveitu Reyðafjarðar en minnst  hjá HS veitu. Verð raforku hefur ekki hækkað hjá öllum raforkusölum en aðeins Orkusalan, HS orka og Rafveita Reyðafjarðar hafa hækkað gjaldskrána um 6,2% og Orkuveita Reykjavíkur um 4,7%.

Raforkureikning heimilisins má skipta í tvo hluta. Annars vegar er greitt er fyrir flutning og dreifingu raforkunnar til þeirrar dreifiveitu sem hefur sérleyfi á viðkomandi landssvæði og hins vegar er greitt fyrir raforkuna sjálfa til þess sölufyrirtækis sem hver og einn kaupandi velur. Þannig greiðir heimili á Ísafirði ávallt Orkubúi Vestfjarða fyrir flutning og dreifingu á raforku en getur síðan t.d. valið að kaupa raforkuna af Orkuveitu Reykjavíkur.

Í neðangreindum dæmum er gert ráð fyrir að heimilið kaupi raforku af þeirri dreifiveitu sem hefur sérleyfi á flutningi og dreifingu hennar á viðkomandi landsvæði og þeim sölufyrirtækjum sem stofnuð hafa verið utan um raforkusöluna hjá viðkomandi dreifiveitu.

Sjá fréttina í heild sinni hér.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Námsvísir Fræðslunets Suðurlands er kominn út

Námsvísir Fræðslunets Suðurlands er kominn út í vefútgáfu. Hann er fullur af glænýjum námskeiðum í bland við gömul og góð námskeið. Það er hægt að innrita sig beint í gegnum vef Fræðslunetsins. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fraedslunet@fraedslunet.is eða hringja á skrifstofutíma í síma 480 8155. Þess má geta að Báran, stéttarfélag styrkir félagsmenn til símenntunar í formi námsstyrkja og hvetur félagsmenn til að kynna sér þá möguleika.

Skoða nýja námsvísinn pdf. Skoða námsvísinn: gagnvirk útgáfa

Reglur um námsstyrki Bárunnar, stéttarfélags

Allt að 83% verðmunur á skólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. þriðjudag. Farið var í 8 verslanir og skoðað verð á 33 algengum skólabókum. Enginn bókabúðanna átti allar bækurnar sem skoðaðar voru. En af þeim bókatitlum sem verðkönnunin náði til voru flestir titlarnir til hjá Bókabúðinni Iðnú eða 31 af 33. Griffill og Forlagið Fiskislóð áttu til 28 titla af 33. A4 – Office 1 og Bóksala stúdenta áttu til 27 titla og Eymundsson 25.  

A4 – Office 1 var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í þessari verðkönnun en 15 titlar af 33 voru ódýrastir hjá þeim. Forlagið á Fiskislóð kom þar á eftir með lægsta verðið á 8 titlum og Grifill á 7. Eymundsson í Kringlunni var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða á 21 af 33.

Mestur verðmunur í könnuninni var á sögubókinni “Nýjir tímar“, en bókin var dýrust á 5.499 kr. hjá  Eymundsson en ódýrust á 2.999 kr. hjá Griffli sem er 2.500 kr. verðmunur eða 83%. Einnig var mikill verðmunur á bókinni „Kemur félagsfræðin mér við“ sem var dýrust á 5.199 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 2.990 kr. hjá A4 – Office 1 sem er 2.209 kr. verðmunur eða 74%.

Minnstur verðmunur var á bókinni “Skyndihjálp og endurlífgun“, en bókin var dýrust á 3.799 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 3.599 kr. hjá Griffli sem var 6% verðmunur. Kennslubókin „Almenn jarðfræði“ var dýrust á 5.910 kr. hjá Bóksölu Stúdenta en ódýrust á 5.299 kr. hjá Griffli sem er 12% verðmunur.

Mikill verðmunur á skiptibókum.

Í þeim þremur verslunum þar sem boðið upp á skiptibókamarkað, var A4 – Office 1 oftast með lægsta útsöluverðið á notuðum skólabókum eða á 22 af 23 titlum. Grifill var oftast með hæsta útsöluverðið á notuðum skólabókum eða á 19 titlum, Eymundsson var með hæsta verðið á 13, en verslunin átti aðeins til 18 titla af 23 af notuðum skólabókum þegar könnunin var gerð. Í þriðjungi tilvika er sama útsöluverð á notuðum bókum, sem voru bæði til hjá Griffli og Eymundsson þrátt fyrir að verslanirnar tvær séu ekki að greiða sama innkaupsverð. Hægt er að nota innleggsnótur frá Eymundsson hjá Griffli. Munur á álagningu skiptibókamarkaðanna var í flestum tilvikum mikill eða um og yfir 50%.

Sjá nánari niðurstöður í töflu á heimasíðu ASÍ

Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara.

Kannað var verð á nýjum bókum í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta Hringbraut, Eymundsson Kringlunni, A4-Office 1 Skeifunni, Griffli Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Kannað var verð á notuðum bókum í eftirtöldum verslunum: Eymundsson Kringlunni, A4 – Office 1 Skeifunni og Griffli Skeifunni. Mál og menning Laugavegi neitaði þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

ASÍ-UNG þing í september

Fyrsta þing ASÍ-UNG, eftir stofnþingið í maí 2011, verður haldið föstudaginn 14. september. Helsta umfjöllunarefni þingsins eru húsnæðismál ungs fólks en mjög hefur þrengt að möguleikum ungs fólks til kaupa á sinni fyrstu íbúð eftir hrunið 2008. Má færa fyrir því rök að staða ungs fólks til íbúðarkaupa hafi ekki verið þrengri í áratugi. Á þinginu verður einnig fjallað um leigumarkaðinn og það óöryggi og háa verð sem leigjendur þurfa að búa við.

Öll aðildarfélögin 51 innan ASÍ eiga rétt á að senda fulltrúa á þingið sem er ætlað ungu fólki á aldrinum 18 – 35 ára. Báran, stéttarfélag hefuróskað eftir tilnefningum frá félagsmönnum vegna fulltrúa á þing ASÍ UNG.

Nánari upplýsingar um þingið má sjá hér.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Í hvaða stéttarfélagi ert þú?

Í vinnustaðaheimsóknum Bárunnar, stéttarfélags og Verslunarmannafélags Suðurlands á síðustu misserum hefur verið mjög áberandi í umræðunni stéttarfélagsaðild starfsmanna fyrirtækja. Viðmælendur virtust almennt ekki meðvitaðir um hvaða meginreglur gilda varðandi stéttarfélagsaðild. Ýmsar spurningar fylgdu í kjölfarið og ætlum við að reyna að svara þeim hér.

„Þarf ég að greiða í stéttarfélag?“

Samkvæmt lögum frá 1980 nr. 55 er atvinnurekendum gert skylt að halda eftir af launum starfsmanna iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og ákvæðum l. 55/1980 er launafólkim frjálst að standa utan stéttarfélaga þótt því beri aftur á móti skylda til þess að taka þátt í fjármögnun kjarnahlutverks stéttarfélaganna sem er að gera lágmarks kjarasamninga sem ná til allra óháð formlegri félagsaðild.

 

„Ef ég skipti um félag missi ég þá öll réttindi?“

Ef iðgjald er greitt til félaga innan ASÍ flytur viðkomandi réttindin á milli stéttarfélaga.

 

„Er ekki sama í hvaða stéttarfélagi ég greiði?“

Stéttarfélögin hafa gert samkomulag um félagssvæðin. Í lögum hvers félags eru félagssvæðintilgreind. Félagssvæði Bárunnar, stéttarfélags er Árnessýsla nema Ölfus og Hveragerði. Félagssvæði Verslunarmannafélags Suðurlands er Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Vestur Skaftafellssýsla. Þeir sem starfa á þessum ákveðnu félagssvæðum greiða til þess félags sem félagssvæðið tilheyrir

 

Get ég valið um stéttarfélag á sama félagssvæði?“

Ef tvö félög eða fleiri eru aðilar að sama kjarasamnigi í sömu starfsgrein á sama félagssvæði er hægt að velja félag.

 

„Hvað græði ég á því að greiða í stéttarfélag?“

Flest félög ganga eins langt og hægt er varðandi réttindi félagsmönnum til handa. Félögin eru með sjúkradagpeninga, sjúkrastyrki, starfsmenntasjóði, orlofshús, og almenna lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn. Einnig starfar Virk starfsendurhæfingarsjóður á vegum stéttarfélaganna.

 

„Hvað gerir Virk fyrir mig?“

Ef starfsgeta þín er skert vegna heilsubrests getur þú leitað aðstoðar hjá ráðgjafa sjúkrasjóðsstéttarfélagsins þíns. Ráðgjafinn aðstoðar þig við að efla færni þína og vinnugetu. Þjónustan miðar að því að efla styrkleika þína og draga úr áhrifum hindrana á vinnugetu og þátttöku á vinnumarkaði.

 

Getur atvinnurekandinn ákveðið í hvaða félag ég greiði?“

Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna fyrirtækisins til hvaða félags þeir eiga að greiða.

 

„Eru sömu laun í öllum stéttarfélögum?“

Í öllum kjarasamningum er kveðið á um lágmarkslaun sem þýðir að ekki megi greiða lægra enlágmarkstaxta. Engin kjarasamningur eða stéttarfélag hamlar því að ekki megi greiða meira. Það er öllum frjálst að greiða góð laun óháð félagsaðild. Öll félög hvetja til bættra kjara. Lágmarkstaxti er ekkert lögmál.

 

Vonandi svarar þetta einhverjum spurningum. Ýmsar upplýsingar eru á heimasíðum félaganna varðandi kaup og kjör. Viljum við hvetja félagsmenn til þessa að fylgjast með heimasíðunum.

Slóðin er www.baran.is og www.vms.is

Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna að Austurvegi 56 er opin alla virka daga frá kl. 08:00-16:00.

Viltu hafa áhrif?

Báran, stéttarfélag óskar eftir tilnefningum frá félagsmönnum vegna fulltrúa á þing ASÍ UNG. Öll aðildarfélög ASÍ hafa rétt til að senda einn fulltrúa ungs fólk úr hópi félagsmanna 18-35 ára. ASÍ-UNG var stofnað fyrir ári síðan. Hlutverk þess er að efla starf ungs launafólks innan aðildarfélaga ASÍ. Vinsamlegast sendið tilnefningar á netfangið thor@midja.is  fyrir 30. ágúst nk.

Báran stéttarfélag hvetur ungt launafólk  til virkrar þátttöku í starfi verkalýðshreyfingarinnar

 

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags

 

 

Verslunin Iceland oftast með lægsta verðið

Matvöruverslunin Iceland sem er nú með í fyrsta skipti í verðkönnun ASÍ var oftast með lægsta verðið, þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á matvöru í átta lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum víðsvegar um landið sl. þriðjudag.

Af þeim 96 vörutegundum sem skoðaðar voru, var Iceland með lægsta verðið á 45 tegundum en Bónus kom þar á eftir með lægsta verðið á 24 tegundum.  Samkaup-Úrval í Hafnarfirði var  oftast með hæsta verðið eða á 58 tegundum af 96. Nóatún kom þar á eftir með hæsta verðið á 19 vörutegundum.

Flestar vörutegundirnar voru til í Fjarðarkaupum eða 93 af 96 og Samkaup-Úrval átti 92 tegundir. Minnsta úrvalið var hins vegar hjá Bónus sem átti 77 af 96 vörutegundum sem skoðaðar voru, Iceland átti 78 og Krónan 79.

Mikill verðmunur í öllum vöruflokkum

Mestur verðmunur í könnuninni var á ódýrasta heilhveitibrauðinu, sem var ódýrast á 194 kr./kg. hjá Iceland en dýrast á 445 kr./kg. hjá Nóatúni, sem er 251 kr. verðmunur eða 129%. Næst mestur verðmunur var á gullauga kartöflum sem voru ódýrastar á 178 kr./kg. hjá Iceland en dýrastar á 389 kr./kg. hjá Nótaúni, sem gerir 211 kr. verðmun eða 119%.

Mestur verðmunur í könnunni var á vöruflokknum ávöxtum og grænmeti en hann var frá 54% upp í 119%. Sem dæmi má nefna 114% verðmun á mangó sem var ódýrast á 294 kr./kg. hjá Iceland en dýrast á 629 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali. Ananas var ódýrastur á 175 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali en dýrastur á 299 kr./kg. hjá Nóatúni sem er 71% verðmunur.

Minnstur verðmunur var í vöruflokknum ostur, viðbit og mjólkurvörur eða 4-34%. Verðmunur á nýmjólk var 4%. Mjólkin var seld á 120 kr. í öllum verslunum nema hjá Iceland, þar var líterinn seldur á 115 kr. Mestur verðmunur var á MS bláberjaostaköku sem var ódýrust á 895 kr. hjá Bónus en dýrust á 1.198 kr. hjá Samkaupum-Úrvali og Nóatúni. Það gerir 34% verðmun.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna spelt Burger hrökkbrauð sem var ódýrast á 149 kr. hjá Iceland en dýrast á 219 kr. hjá Samkaupum-Úrvali, verðmunurinn var 70 kr. eða 47%. Ódýrustu laxaflökin kostuðu 1.898 kr./kg. hjá Bónus en voru dýrust á 2.398 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum, Iceland og Hagkaupum. Verðmunurinn var 500 kr. eða 26%. 1/2 l. af Egils Grape var ódýrast á 119 kr. hjá Krónuninni en dýrast á 179 kr. hjá Samkaupum-Úrvali, sem er 50% verðmunur. Einnig má nefna 34% verðmun á 25 st. af Melroses te-i sem var ódýrast á 246 kr. hjá Iceland en dýrast á 329 kr. hjá Nóatúni.  

Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Akureyri, Krónunni Akranesi, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Iceland Engihjalla, Nóatúni Háaleitisbraut, Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði og Hagkaupum Holtagörðum.

Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu verðlagseftirlitinu að taka niður verð í verslun sinni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Lyf og heilsa á Selfossi oftast með lægsta verðið

Fyrr í vikunni kynnti verðlagseftirlit ASÍ niðurstöðu úr verðkönnun á lyfum seldum í lausasölu í apótekum. Nú er birt niðurstaða úr sömu könnun en sjónum beint að öðrum vörum sem til eru í apótekum. Lyf og heilsa á Selfossi var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð sl. mánudag. Skoðaðar voru m.a. vörur eins og egglosapróf, ýmiss konar krem og fæðubótarefni. Hæsta verðið var oftast hjá Apótekaranum Akureyri, í 10 tilvikum af 41 en Skipholts Apótek kom þar á eftir með hæsta verðið í 9 tilvikum af 41. Verðmunur á þeim vörum sem skoðaðar voru var frá 14% upp í 144%, en í helmingi tilvika var fjórðungs til helmings verðmunur.

Mestur verðmunur í könnuninni var á bossakreminu frá Lansinoh (85 gr.) sem var dýrast á 2.819 kr. í Urðarapóteki Vínlandsleið en ódýrast á 1.154 kr. í Reykjavíkur Apóteki á Seljavegi en það gerir 1.665 kr. verðmun eða 144%. Einnig var mikill verðmunur á Hákarlalýsi (130 stk.) sem var ódýrast á 1.011 kr. hjá Rima Apóteki Langarima en dýrast á 2.007 kr. hjá Apóteki Hafnarfjarðar Tjarnarvöllum, verðmunurinn er 99%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á rakakremi frá Weleda (Íris 30 ml.) sem var ódýrast á 3.063 kr. hjá Lyfjaborg í Borgartúni en dýrast á 3.490 kr. hjá Apóteki Garðabæjar Litlatúni, Skipholts Apóteki og Apótekaranum á Akureyri en það gerir 427 kr. verðmun eða 14%.

20-40% verðmunur á sólarvörn
Verðlagseftirlitið skoðaði nokkrar tegundir sólarvarnarkrema og var á milli 20-40% munur á hæsta og lægsta verði þeirra. Sem dæmi má nefna sólarvörn frá Eucerin (30 UVA, 150 ml.) sem var dýrust á 3.133 kr. hjá Lyfjavali Álftamýri en ódýrust á 2.375 kr. hjá Akureyraapóteki Kaupangi, verðmunrinn er 32%. 2in1 sólarvörnin frá Decubal (SPF 30, 200 ml.) var dýrust á 2.610 kr. hjá Apótekaranum Akureyri en ódýrust á 1.827 kr. hjá Lyf og heilsu, Skipholtsapóteki og Akureyraapóteki sem gerir 43% verðmun. Froðan frá Proderm (30 high, 150 ml.) var dýrust á 2.673 kr hjá Akureyraapóteki en ódýrust á 2.031 kr. hjá Lyf og heilsu og Skipholts Apóteki, verðmunruinn er 32%. 

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að egglosapróf frá Sure sign (5 stk. í pakka) var dýrast á 4.970 kr. hjá Apótekaranum Akureyri en ódýrast á 3.570 kr. hjá Lyfjaborg í Borgartúni, sem gerir 1.400 kr. verðmun eða 39%. Konjak töflur (180 stk.) voru dýrastar á 6.032 kr. hjá Apóteki Garðabæjar en ódýrastar á 4.524 kr. hjá Lyf og heilsu Selfossi, verðmunurinn er 1.508 kr. eða 33%.

Mikill munur á vöruúrvali apótekanna
Ekkert apótekanna átti til allar vörurnar sem skoðaðar voru. En af þeim vörum sem könnunin náði til voru flestar þeirra fáanlegar hjá Apóteki Garðabæjar Litlatúni eða 37 af 41. Lyfjaver Suðurlandsbraut og Apótek Vesturlands áttu til 33 vörur af 41. Siglufjarðar Apótek, Apótekið Akureyri og Garðs Apótek áttu aðeins til um helminginn af þeim vörum sem skoðaðar voru.

Sjá nánar í töflu.

Könnunin var gerð í eftirtöldum apótekum: Apóteki Hafnarfjarðar, Tjarnarvöllum 11; Apótekarinn Hafnarstræti, Akureyri; Apótekinu Akureyri, Furuvöllum 17; Garðs Apóteki, Sogavegi 108; Lyf og heilsu Selfossi; Lyfju Borgarnesi; Lyfjavali Álftamýri, Álftamýri 1-5; Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 22; Reykjavíkur Apóteki, Seljavegi 2; Rima Apóteki, Langarima 21; Skipholts Apóteki, Skipholti 50B; Urðarapóteki, Vínlandsleið 16; Akureyrarapóteki, Kaupangi við Mýrarveg; Apóteki Vesturlands, Smiðjuvöllum 32, Akranesi; Siglufjarðar Apóteki, Norðurgötu 4B; Apóteki Garðabæjar, Litlatúni 3; Lyfjaborg Borgartúni 28; Austurbæjar Apóteki, Ögurhvarfi 3. 

Árbæjarapótek neitaði þátttöku í könnunni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ