Við vinnum fyrir þig

Translate to

Bullandi ágreiningur um ákvörðun innanríkisráðherra í fangelsismálum

Á fundi stéttarfélaganna með þingmönnum Suðurkjördæmis sem haldinn var á Eyrarbakka þann 28. sl. kom sterkt fram í máli þeirra að ákvörðun Ögmundar Jónassonar félli í grýttan jarðveg sunnlendinga. Þingmenn töldu ákvörðun ráðherrans ekki eiga sér lagaheimild og eins og einn þingmaðurinn orðaði það „hættum þessu Hólmsheiðarbulli og byggjum við á Litla Hrauni“.

Krafa frá stéttarfélögunum til þingmanna um samstöðu í atvinnumálum.

Stéttarfélögin á Suðurlandi voru að kalla eftir sameiginlegri stefnumótun þingmanna í atvinnumálum kjördæmisins . Töldu þingmenn að erfitt væri að vera með þverpólitíska stefnu í atvnnumálum og báðust undan því.

Þingmenn sögðust treysta sér til að sameinast um einstaka mál eins og viðbyggingu við Litla Hraun, að standa vörð um Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Suðurlandsveg. Þingmenn hétu fundarmönnum því að beita sameiginlegum slagkrafti til þessara mála. Miklar umræður urðu um heildarstefnu í atvinnumálum, lélegu aðgengi að fjármagni og atvinnuleysi.

Að lokum kölluðu fundarmenn eftir stórskipahöfn í Þorlákshöfn, virkjunum samkvæmt rammaáætlun og mikil áhversla lögð á að raforkan nýtist í heimabyggð.

Eins og einn þingmaðurinn orðaði það „tími kjördæmispotara er ekki liðinn“ vonandi spyrnir það við þeirri þróun að þjónusta og uppbygging fari á höfuðborgarsvæðið.

Félagsfundur Bárunnar stéttarfélags

Við viljum minna á félagsfund Bárunnar sem haldinn verður í kvöld kl. 20.00 í sal Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Austurvegi 56, Selfossi.

Meðal efnis á fundinum er kynning á starfi félagsins og kosning fulltrúa á þing Starfsgreinasambands Íslands.

Félagar, mætum öll og tökum ábyrgð á eigin málum.

Námskeiðið Á tímamótum

Báran stéttarfélag í samvinnu við Fræðslunet Suðurlands bjóða þeim félagsmönnum sem huga að starfslokum vegna aldurs að sækja námskeiðið Á tímamótum.

Á námskeiðinu verður  m.a. fjallað um: Félagslega þætti og breytingar sem verða á lífi fólks við starfslok, þjónustu sveitarfélaga við eldri borgara og hvernig hægt er að nálgast hana, þjónustu Tryggingastofnunar og málaflokka sem heyra undir hana og Sjúkratryggingar Íslands. Reglur um greiðslur ellilífeyris verða kynntar. Þá verður fjallað um hvernig hægt er að undirbúa sig heilsufarslega undir efri árin. Þar sem gert er ráð fyrir mikilli þátttöku verða fjögur námskeið haldin.

Námskeiðið er að kostnaðarlausu fyrir félagsmenn Bárunnar, stéttarfélags.

Á tímamótum 15 stundir

Tímasetning: 4. – 20. október 2011

Staður: Iða á Selfossi

Þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17.00 til 18.50

 

Á tímamótum 15 stundir

Tímasetning: 27. október – 15. nóvember 2011

Staður: Iða á Selfossi

Þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17.00 til 18.50

 

Á tímamótum 15 stundir

Tímasetning: 10. – 26. október

Staður: Grunnskólinn í Hveragerði

Mánudaga og miðvikudaga kl. 17.00 – 18.50

 

Á tímamótum 15 stundir

Tímasetning: 17. október – 3. nóvember 2011

Staður: Hella/Hvolsvöllur

Mánudaga og fimmtudaga kl. 17.00 – 18.50

 

Innritun er í síma 480-8155. Nánari upplýsingar hjá Fræðsluneti Suðurlands eða Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi.

Opinn fundur um atvinnumál með þingmönnum Suðurkjördæmis

Báran, stéttarfélag, Verslunarmannafélag Suðurlands, Félag iðn- og tæknigreina, Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi og Verkalýðsfélag Suðurlands boða til fundar þar sem rædd verður staða og framtíð atvinnumála á Suðurlandi.

Fundurinn verður haldinn í Félagsheimlinu Stað á Eyrarbakka miðvikudaginn 28. september kl. 20.00. Fundarstjóri verður Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands.

Meðal þess sem spurt verður:
Hver er stefna þingmanna kjördæmisins í atvinnuuppbyggingu á svæðinu?
Stendur til að leggja niður fangelsið á Litla Hrauni?
Á að loka sjúkrahúsunum á Suðurlandi?
Hver eru sjónarmið þingmanna á nýtingu virkjanakosta á Suðurlandi?

Sýnum samstöðu og leggjumst öll á árarnar til þess að rödd sunnlendinga heyrist þegar kemur að ákvörðunartöku sem skiptir íbúa svæðisins miklu máli til framtíðar.

Nýr kjarasamningur fyrir landbúnaðarverkafólk

Bændasamtök Íslands hafa samið við Starfsgreinasamband Íslands og um nýjan kjarasamning fyrir starfsfólk sem vinnur almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Samningurinn er afturvirkur og gildir frá og með 1. júní 2011 til 31. janúar 2014. Fyrirvari er á kjarasamningnum þar til stjórn BÍ hefur samþykkt hann en hún fundar í þessari viku. 

Búfræðingar fá námið metið til launahækkunar
Við samþykkt kjarasamningsins er kveðið á um eingreiðslu að upphæð kr. 50 þúsund fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem er við störf í maí 2011 og miðast greiðslan við fullt starf í mánuðinum mars-maí 2011. Sú nýlunda er í samningnum að þeir starfsmenn sem lokið hafa búfræðinámi, fiskeldisnámi eða tveggja ára háskólanámi við tamningar raðast í hærri launaflokk en almennir landbúnaðarverkamenn. Fiskeldisfræðingar og tamningamenn fengu sambærilega samninga í kjarasamningum við SA sl. vor.

Byrjunarlaun landbúnaðarverkafólks verða 184.711 krónur
Byrjunarlaun búfræðinga eru 197.812 krónur en með 7 ára starfsreynslu er taxtinn 205.936 krónur. Almenn byrjunarlaun landbúnaðarverkamanna eru 184.711 krónur og 192.030 krónur eftir 7 ára starf. Hámarksgreiðsla fyrir fæði og húsnæði er 2.040 krónur á dag í nýja samningnum fyrir 18 ára og eldri. Grunnlaun 17 ára unglinga verða 175.475 krónur á mánuði og 14 ára 120.062 krónur.

Nefnd ætlað að meta fræðslumál starfsmanna í landbúnaði
Sérstök bókun í samningnum var gerð um það að setja á laggirnar fjögurra manna nefnd sem mun fjalla um fræðslumál starfsmanna í landbúnaði. Nefndinni er ætlað að skoða framboð á námskeiðum fyrir landbúnaðarverkamenn og koma með tillögur um úrbætur telji nefndin ástæðu til þess. Þá er nefndinni ætlað að ræða hvort meta eigi samþykkt námskeið til launahækkana.

Samningurinn BÍ og SGS er aðgengilegur á pdf-skjaliá vef Bændasamtakanna en þar má m.a. sjá launatöflur og ítarlegri ákvæði.

Samningur BÍ og Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Þórhafnar er samhljóða samningi við SGS. Hann er aðgengilegur hér.

Tekið af heimasíðu Bændasamtaka Íslands.

Kjarasamningur við Sólheima

Talin hafa verið atkvæði um kjarasamning milli Bárunnar, stéttarfélags og Sólheima ses.

Niðurstaðan er sem hér segir:

Á kjörskrá voru 34

Greidd atkvæði voru 13 og kjörsókn því 38%

Já sögðu 12 eða 92%

Nei sagði 1 eða  8%

Auðir eða ógildir 0

Samningurinn er því samþykktur og gildir til 30. júní 2014

Samningur við Kumbaravog

Talin hafa verið atkvæði vegna kjarasamnings Bárunnar, stéttarfélags við Kumbaravog ehf. Á kjörskrá voru 44 og kjörsókn var 50%.
Samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Nýr samningur gildir til 30. júní 2014.

Barnagleraugu í óskilum

Bleik/fjólublá Barnagleraugu fundust í afgreiðslurými Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi. Þeir sem sakna gleraugnanna geta haft samband í síma 480-5000