Við vinnum fyrir þig

Translate to

Verðlaun afhent

Þeir félagarnir Þór og Hjalti brugðu undir sig betri fætinum í dag og afhentu verðlaun fyrir þáttöku í vali á fyrirtæki ársins sem Báran og verslunarmannafélagið stóðu fyrir í síðasta mánuði.

Eins og kunnugt er þá var það Kjörís í Hveragerði sem hlaum sæmdarheitið fyrirtæki ársins 2013.

 Vinningshafarnir voru þau Sigrún Ína Ásbergsdóttir hjá Fjöruborðinu á Stokkseyri og Hallgrímur Óskarsson hjá Lögmönnum Suðurlands á Selfossi og hlutu þau veglegar matarkörfur frá Sláturfélagi Suðurlands. Þau voru að vonum ánægð með verðlaunin.

Hér fyrir neðan má sjá vinningshafa taka við verðlaununum úr hendi Hjalta Tómassonar, starfsmanns Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna.

 Hallgrímur og Hjalti Sigrún Ína og Hjalti 

Hinir lægst launuðu fá minnst

Margir eiga erfitt með að ímynda sér að fólk lifi af minna en 300.000 krónur í mánaðarlaun. Ráðherrar, atvinnurekendur og fleiri eiga skiljanlega erfitt með að setja sig í þau spor. Í verkalýðshreyfingunni erum við hins vegar í daglegum samskiptum við fólk sem er einmitt að reyna þetta; að lifa af mánaðarlaunum undir 300.000 krónum. Í nýútkominni könnun sem Flóabandalagið lét gera meðal félaga sinna kemur í ljós að karlar eru með að meðaltali 298.000 krónur í dagvinnulaun en konur eru með að meðaltali 255.000 krónur í dagvinnulaun. Við þessar upphæðir bætast greiðslur svo sem vaktaálag, bónusar og yfirvinna en þrátt fyrir það ná heildarlaun kvenna ekki 300.000 krónum að meðaltali. Heildarlaun karlanna fer hins vegar í 414.000 krónur að meðaltali. 40% fólks sem hefur ekki formlega menntun á vinnumarkaði er með heildarlaun undir 300.000 krónum. Þetta er veruleiki verkafólks á Íslandi hvort sem yfirvöld og samningsaðilar trúa því eða ekki.

Það vekur áhyggjur að tillögur SA ganga út frá tveggja prósenta launahækkunum sem gerir um 4.000 króna hækkun fyrir fólkið á lægstu töxtunum. Tvö prósent fyrir fólk með hálfa milljón á mánuði er hins vegar 10.000 krónur. Tillögur SA ganga ekki út á að hækka laun þeirra lægst launuðu.

Það sem vekur enn meiri áhyggjur en afstaða SA er afstaða stjórnvalda. Engar tillögur í skattamálum eða varðandi skuldaniðurfellingu sem litið hafa dagsins ljós eru til að létta láglaunafólki lífið. Þvert á móti er verið að hækka gjöld og nefskatta í gegnum fjárlagafrumvarpið en það eru gjöld sem eru óháð tekjum og koma því hlutfallslega verst niður á láglaunafólki. Skattatillögur ríkisstjórnarinnar ganga út á að láglaunafólk fær engar skattalækkanir en því hærri tekjur sem þú hefur því betur gagnast þér skattalækkunin. Sömu sögu er að segja um nýjasta útspilið, að séreignasparnaður fólks geti nýst til að lækka húsnæðisskuldir. Gott og vel, kemur örugglega einhverjum vel en aftur er þetta aðgerð sem gagnast hátekjufólki best en lágtekjufólki minnst.

Fyrst ber að nefna að fólk með lægri tekjur er með lægri sparnað en aðrir. Í öðru lagi er fólk með lágar tekjur síður líklegt til að leggja fyrir í séreign. Í þriðja lagi er umtalsverður hópur fólks með lægri tekjur á leigumarkaði. Í fyrrnefndri könnun sem gerð var á félagssvæði Flóans er greint frá því að þriðjungur aðspurðra býr í leiguhúsnæði, 12,7% býr í foreldrahúsum en aðeins ríflega helmingur býr í eigin húsnæði. Fólk með hærri tekjur er líklegra til að búa í eigin húsnæði. Það er því ljóst að þessi aðgerð mun koma mismunandi hópum misvel. Þetta er ekki aðgerð til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem lægst hafa launin frekar en aðrar aðgerðir.

Í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins eru um 50.000 manns sem ekki hafa hlotið formlega menntun á vinnumarkaði, þetta er um helmingur starfsfólks á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekki ásættanlegt að allar stjórnvaldaðgerðir sem hingað til hafa verið kynntar miði að því að aðstoða tekjuhærra fólk úr greiðsluerfiðleikum. Það virðist hins vegar vera leynt og ljóst markmið stjórnvalda að einblína á einn hóp frekar en annan og auka með því ójöfnuð meðal landsmanna.

Starfsgreinasambandið hefur lagt til blandaða leið krónutöluhækkunar og prósentuhækkunar í kjarasamningum, einmitt til að tryggja að misskipting aukist ekki frekar.

Drífa Snædal

Yfirlýsing frá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna kjaraviðræðna SGS við SA

Viðræður vegna kjarasamninga hafa nú ratað inn í auglýsingatíma sjónvarpsins með auglýsingu sem SA birti í gærkveldi. Þar er varað við hækkun launa umfram 2%. Flestir leggjast nú á eitt að koma í veg fyrir að launafólk fái launahækkanir í kjarasamningum sem eru lausir í lok mánaðarins en það er fáheyrt að samtök atvinnurekenda fari frekar í auglýsingaherferðir en að tala við samningsaðila við samningaborðið. Starfsgreinasamband Íslands lagði fram kröfur sínar um síðustu mánaðarmót og þeim var hafnað samstundis. Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að setjast við samningaborðið með Samtökum atvinnulífsins en fátt hefur verið um svör.

Lægstu taxtar á vinnumarkaði eru 191.752 krónur. Ef launamaður hefur unnið í fjóra mánuði hjá sama atvinnurekenda má ekki greiða honum lægra en 204.000 krónur í mánaðarlaun. 2% hækkun á þessi laun þýðir hækkun um 4.000 krónur. Þetta eru tillögur Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans. Samtök atvinnulífsins hafa ekki verið til viðræðu um frekari hækkanir en Starfsgreinasambandið lagði fram kröfu um 20.000 króna hækkun á taxta og þykir mörgum hógvært.

Það er gömul saga og ný að í aðdraganda kjarasamninga keppist greiningadeildir, stjórnvöld og samtök atvinnurekenda við heimsendaspár verði samið um verulegur launahækkanir. Starfsgreinasambandið hefur sagt að vissulega sé launafólk alltaf til í að axla ábyrgð en við gerum það ekki ein. Stjórnvöld hafa lagt fram skattatillögur sem koma millitekjuhópum til góða en lægst launaða fólkið á vinnumarkaði fær engar skattalækkanir. Verð á vörum og þjónustu fer stighækkandi og stjórnvöld leggja á nýjar álögur á almenning í stað þess að leggja skatta á þá sem eru aflögufærir. Þegar kemur svo að kjarasamningum á lægst launaða fólkið á vinnumarkaðnum að „axla ábyrgð“. Hafa ber í huga að þeir hópar sem Starfsgreinasambandið semur fyrir verða síst varir við launaskrið, það er í þeim hópum sem betur standa. Venjulegt verkafólk er oftar en ekki á töxtum og þarf að hífa upp launin með vöktum og yfirvinnu. Í þessu samhengi verður auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins um að launafólk eigi að axla ábyrgð í besta falli hrokafull og ekki til þess fallin að liðka fyrir samningum.

Það vekur sérstaka athygli að í málflutningi Samtaka atvinnulífsins er ekki vikið orði að ábyrgð atvinnurekenda eða stjórnvalda á að halda verðbólgunni í skefjum. Fyrirtæki innan SA bera ekki síst ábyrgð á því mikla launaskriði sem hefur orðið á vinnumarkaði hjá öðrum en almennu launafólki. Samninganefnd SGS fordæmir að SA skuli varpa allri ábyrgð yfir á launafólk. Starfsgreinasambandið mun aldrei gangast undir slíkan málflutning!

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands

21. nóvember 2013

Í samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sitja 16 formenn stéttarfélaga um allt land sem fara með samningsumboð fyrir um 23.000 félagsmenn.

AFL Starfsgreinafélag

Aldan stéttarfélag

Báran stéttarfélag

Drífandi stéttarfélag

Eining-Iðja

Önnur sveitarfélög fylgi fordæminu

Alþýðusamband Íslands fagnar þeirri ákvörðun borgarráðs að hætta við fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar, en það gerir borgin til að sporna við verðbólgu og auka kaupmátt í komandi kjarasamningum. ASÍ skorar á aðra að fylgja fordæmi borgarráðs.

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, skorar á önnur sveitarfélög að fylgja fordæmi höfuðborgarinnar og hækka ekki sínar gjaldskrár. Það sama segir hann eiga við um ríkisstjórnina en í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir víðtækum gjaldskrárhækkunum á ýmsum sviðum sem þurfi að endurskoða.

Hlusta: asi-rikid-tharf-ad-fylgja-fordaeminu

Fyrirtæki ársins 2013

Nú er komið að árlegu vali á fyrirtæki ársins að mati félagsmanna Bárunnar, stéttafélags og Verslunarmannafélags Suðurlands.

Tilgangurinn er að með tímanum verði þetta val að einskonar gæðastimpli á fyrirtæki og með því að öðlast þessa útnefningu skipi þau sér í hóp þeirra fyrirtækja sem eftirsóttast er að vinna hjá.

Kannaðir eru nokkrir lykilþættir sem varða starfsfólk til dæmis hvernig fólki líður í vinnunni, hvernig stjórnun er að mati starfsfólks, hvernig starfsandi er innan fyrirtækisins og hvort starfsmenn eru sáttir við möguleika sína til að komast áfram í starfi hjá fyrirtækinu til dæmis með aukinni menntun.

Einnig er lagt til grundvallar samskipti stéttafélaganna við viðkomandi fyrirtæki. Þar leggja starfsmenn félaganna sitt mat á hvernig samskiptum er háttað og  hvernig gengið hafi að leysa úr ágreiningi, hafi verið um slíkt að ræða.

Könnun er send út til allra félagsmanna þessara tveggja stéttafélaga sem eru um 3400 talsins, á svæðinu frá Selvogi að Lómagnúp. Skilafrestur er til 15. nóvember og athygli er vakin á að hægt er að póstsenda svar sér að kostnaðarlausu. Einnig má koma svörum til félagsins gegnum trúnaðarmenn á vinnustöðum eða beint á skrifstofu félaganna að Austurvegi 56, Selfossi. Könnunin sjálf er án persónueinkenna. Hvert könnunarblað er jafnframt happadrættisseðill og eru viðtakendur hvattir til að halda fylgiseðli til haga til að framvísa ef um vinning er að ræða. Í verðlaun eru veglegar matarkörfur frá Sláturfélagi Suðurlands.

Við hvetjum félagsmenn til að taka þátt í þessari könnun því þetta er ein leið af mörgum til að vekja stjórnendur fyrirtækja til umhugsunar og kveikja metnað til að huga vel að starfsfólki sínu.

Þingmenn – standið við stóru orðin

Báran, stéttafélag hefur sen frá sér eftirfarandi ályktun:

Stjórn Bárunnar, stéttafélags mótmælir harðlega þeim niðurskurði á atvinnuskapandi verkefnum á Suðurlandi sem fram koma í framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að á sama tíma og atvinnulíf á Suðurlandi á undir högg að sækja þá kemur þessi niðurskurður sér sérstaklega illa fyrir fyrirtæki, stofnanir og launafólk á svæðinu.

Skornar eru niður milli 400 og 500 milljónir í hin ýmsu verkefni sem til atvinnumála teljast og ættu að öllu eðlilegu að stuðla að atvinnuaukningu og styrkingu atvinnulífs á Suðurlandi.

Stórn Bárunnar vekur athygli á að meðal núverandi ráðherra eru þingmenn sem höfðu uppi stór orð um niðurskurð og dugleysi fyrri ríksstjórnar í atvinnumálum, ekki síst í aðdraganda síðustu kosninga. Stjórn Bárunnar krefst þess að þessir sömu fulltrúar fólksins og harðast gagnrýndu aðra fyrir kosningar noti völd sín og áhrif til að standa við orð sín og afstýra þeirri ógæfu sem við Sunnlendingum blasir. Athygli ráðamanna er líka vakin á að Sunnlendingar hafa ekki sömu atvinntækifæri og flestir aðrir landshlutar hafa í þeim greinum sem best standa nú um mundir. Því mun þessi niðurskurður bitna harðar á þeim en öðrum. Slæmt er að geta ekki treyst orðum ráðamanna sem kveikt hafa réttmætar væntingar um framgang löngu tímabærra verkefna.

Stjórn Bárunnar hvetur þingmenn kjördæmisins að taka höndum saman og berjast opinskátt fyrir því að þessi niðurskurður nái ekki fram að ganga, miklu fremur að bætt verði fjármagni í þau verkefni sem sannanlega munu verða til að auka atvinnu og létta róður launamanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Þessi ályktun hefur verið send í flesta fjölmiðla og á þingmenn kjördæmisins.

Félagsfundur í Bárunni, stéttafélagi

Félagsfundur var haldinn í Bárunni, stéttafélagi þ. 24 september sl.

Ágæt mæting var á fundinn. Helsta efni fundarins var að kynna fyrir félagsmönnum niðurstöður kjarakönnunar sem framkvæmd var síðustu vikurnar í ágúst og er grunnur að kröfugerð Bárunnar fyrir komandi kjarasamninga. Sú kröfugerð er innlegg Bárunnar í sameiginlega kröfugerð Starfsgreinasambandsins.

Í máli formanns kom fram að meginkröfurnar, hækkun skattleysismarka, aukinn kaupmáttur og hækkun lægstu launa umfram aðra, væru í samræmi við kröfur annarra stéttafélaga innan Starfsgreinasambands Íslands. Greinilegt var á fundamönnum að lág laun á svæðinu eru mikið áhyggjuefni og þrýstingur á að barist verði gegn þeirri þróun. Formaður fór aðeins yfir þá vinnu sem unnin hefur verið í sameiginlegri kröfugerð SGS og taldi raddir Bárunnar hafa haft töluverð áhrif í þeirri vinnu. Þess má geta að Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar sinnir mörgum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna og er ástæða fyrir félaga Bárunnar til að vera ánægðir með það traust sem formanni félagsins er sýnt af öðrum félögum verkalýðshreyfingarinnar.

Á fundinum kom skýrt fram að félagsmenn telja að forystumenn félagsins ættu að vera enn duglegri til dæmis á vettvangi fjölmiðla og inn í fyrirtækjunum sjálfum. Nauðsynlegt væri að gera baráttu félagsins sýnilegri heima í héraði.

Ýmislegt fleira var rætt, vítt og breytt, á skemmtilegum og gagnlegum fundi. Félagið bauð fundarmönnum upp á kjötsúpu að hætti hússins og sterkt og gott kaffi á eftir.

 

 24.09.2013004

Heimsókn þingmanna

Þingmenn samfylkingarinnar, þau Árni Páll Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Guðbjartur Hannesson og Soffía Sigurðardóttir komu í heimsókn á skrifstofu stéttafélaganna í gær. Tilgangurinn var að setja sig inn í þau mál sem helst brenna á okkur hér á félagssvæðinu, ásamt því að kynna fyrir forystumönnum og starfsfólki þær áherslur sem Samfylkingin setur á oddinn í atvinnumálum og uppbyggingu á svæðinu, auk þess að kynna ýmis mál sem ætlunin er að taka til umræðu á Alþingi.

Fundurinn var bæði gagnlegur og ánægjulegur enda nauðsynlegt að stjórnmálamenn séu vel upplýstir um stöðu einstakra svæða. Fjallað var meðal annars um skuldamál heimilanna, svarta atvinnustarfsemi, verðtrygginguna, áhyggjur stéttafélaganna af allt of lágum launum, ýmsar leiðir við að byggja upp leigumarkað á Íslandi og fleira. Einnig voru málefni lífeyrissjóðanna rædd og staða íslensku krónunnar í samhengi við afkomu launafólks.

Fram kom í máli þeirra að mikill vilji er til að vera í góðu sambandi við verkalýðshreyfinguna sem er stærsti einstaki fulltrúi almennings á Íslandi. Viðurkenndu þau að ýmislegt hefði farið úrskeiðis í því efni í tíð síðustu ríkisstjórnar og töldu þau nauðsynlegt að læra af þeim mistökum. Fulltrúar stéttafélaganna fóru yfir ýmislegt sem hefur verið í gangi á félagssvæðinu en lögðu mesta áherslu á að berjast gegn þeirri láglaunastefnu sem virðist hafa rutt sér til rúms á landinu undanfarin ár og áratugi. Skoðun stéttafélagsins kom skýrt fram að þessi stefna er að festa stóra hópa fólks í fátækragildru sem erfitt verður að vefja ofan af og óska þau eftir skilningi stjórnmálamanna og aðstoð við að breyta þessari stefnu.

Stéttafélögin fagna þessu frumkvæði stjórnmálamanna en auk þeirra þingmanna sem komu í heimsókn í gær þá hefur þingmaður sunnlendinga Ásmundur Friðriksson verið duglegur að afla sér upplýsinga og koma í heimsóknir til okkar. Von okkar er að raddir launamanna verði meir áberandi í sölum Alþingis en verið hefur þar sem mest öll umræða hefur verið verið um hvernig koma megi fyrirtækjum til bjargar. Launafólk þarf einnig aðstoð við að ná endum saman og þó saman gangi í viðræðum við atvinnurekendur er ljóst að aðgerðir ríkisvaldsins munu hafa mikil áhrif á hvort launafólk beri raunverulega eitthvað úr býtum.

Það er von stéttafélaganna að fleiri þingmenn verði duglegir við að heimsækja okkur, sem erum í svo nánum tengslum við vinnandi fólk, svo skilaboðin megi ná eyrum þeirra sem þau þurfa að heyra.

Kjarakönnun Bárunnar

Nú eru samningar lausir þann 31. oktober næstkomandi og af því tilefni sendir Báran, stéttarfélag út kjarakönnun til félagsmanna sinna á næstu dögum.

Reikna má með erfiðum samningaviðræðum ef marka má orð framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og forystumanna í verkalýðshreyfingunni í fjölmiðlum undanfarið.

Saminganefnd Bárunnar er nauðsynlegt að vita hvað félagsmenn vilja leggja mesta áherslu á, því þær áherslur munu samningarnefndarmenn okkar í samninganefnd Starfsgreinasambandsins fara með og berjast hatrammlega fyrir.

Við ríkjandi aðstæður er einnig bráðnauðsynlegt að sem flestir fylki sér bak við samninganefndir stéttarfélaganna því oft hefur verið þörf en nú er alger nauðsyn um samstöðu þegar kemur að því að krefjast eðlilegs bita af kökunni sem til skiptanna er.

Við vonumst eftir því að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í þessari könnun svo vilji sem allra flestra félagsmanna skili sér inn í kröfugerð fyrir komandi samningaviðræður. Könnunin er nafnlaus.

Skilafrestur er til 1. september.

Könnunina má setja ófrímerkt í póst, skila til trúnaðarmanna eða á skrifstofu félagsins á Austurvegi 56.

Tökum þátt í því að marka stefnuna, tökum ábyrgð á kjörum okkar og sýnum samstöðu með samningarnefnd okkar.

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað um allt að 26 prósent

Af vefnum www.visir.is og www.asi.is

 

Vöruverð hefur hækkað verulega í öllum verslunum frá því í júní 2010 þar til í júní 2013, samkvæmt könnun Alþýðusamband Íslands (ASÍ) sem kynnt var í gær.

Könnunin tekur til lágvöruverðsverslana, stórmarkaða og klukkubúða en þegar rýnt er í verðhækkanir verslunarkeðjanna á þessum þremur árum má sjá að verðhækkanir eru afar mismunandi eftir verslunarkeðjum.

Mesta hækkunin á tímabilinu er hjá Tíu-ellefu verslunum en hefur verð þeirra hækkað um 26 prósent. Vörukarfa hjá Bónus hefur hækkað um 20 prósent og vörukarfa Krónunnar um 18 prósent.

Minnsta hækkunin á þessu tímabili er hinsvegar hjá verslunum Hagkaupa þar sem verð hefur hækkað um fjögur prósent og hjá  verslunum Nóatúns hefur verð  hækkað um átta prósent.

Til hilðsjónar bendir ASÍ á að verð á mat- og drykkjarföngum í vísitölu neysluverðs hafi hækkað um 17 prósent frá því í júní 2010.

Nánar um könnunina: https://asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-3757