Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fleiri og meiri afslættir

Starfsmenn Þjónustuskrifstofu, hafa nú um skeið verið í sambandi við fjölda fyrirtækja í því skyni að fá afslætti og sérkjör fyrir félagsmenn sína í Verslunarmannafélagi Suðurlands og Bárunnar, stéttarfélags.

Lauslega áætlað þá hefur verið haft samband við um áttatíu fyrirtæki í hinum ýmsu greinum á félagssvæðinu svo sem ferðaþjónustu, bílgreinum, afþreyingu og veitingum.

Í stutt máli sagt þá hafa viðtökur þessara fyrirtækja verið framar öllum vonum. Langflest hafa fallist á að veita afslætti og sum verulega  en sum fyrirtæki eiga þó erfiðara með það en önnur vegna eðlis starfsemi sinnar og er það skiljanlegt. Þó þótti rétt að reyna við þau líka og var greinilegur áhugi á þessari tillögu okkar  og ekki að vita hvernig það þróast á næsta ári eða árum. Á nýju félags- og afsláttarskírteini eru á bilinu 60 – 70 fyrirtæki sem veita afslætti eða bjóða félagsmönnum önnur sérkjör, gegn framvísun félagsskírteinis

Nokkrar breytingar hafa orðið frá síðasta ári þar sem nokkrir aðilar hafa hætt eða eru að breyta til í rekstrinum. Aðrar hafa komið inn í staðinn og fögnum við því.

Tilgangur þessa framtaks er af tvennum toga, annarsvegar er þetta viðleitni félaganna að létta undir með félagsmönnum sínum en ekki síður að viðhalda eða auka atvinnu á svæðinu með öflugri verslun og þjónustu.

Við hvetjum fólk eindregið til að nýta sér þá afslætti sem í boði eru og munum að hver spöruð króna léttir róðurinn.

Fyrirtækin láta okkar fólk njóta afsláttarkjara, látum fyrirtæki í heimabyggð njóta viðskipta okkar, það er beggja hagur.

Töluvert hefur verið spurt eftir afsláttarskírteinunum og greinilega eru fleiri og fleiri að nýta sér sparnaðinn sem felst í að muna eftir skírteininu.

Kjarasamningurinn samþykktur

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá Bárunni, stéttarfélagi, Selfossi um Sáttatillögu Ríkissáttasemjara frá 21. febrúar 2013 og jafnframt Aðalkjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Bárunnar, stéttarfélags sem undirritaður var 21. desember 2013. Atkvæðagreiðslan var rafræn og þeir félagsmenn sem voru í sambandi við skrifstofu lýstu ánægju sinni með það fyrirkomulag. Atkvæðagreiðslunni lauk í dag föstudaginn 7. mars kl. 12:00.

 Á kjörskrá voru 1098, atkvæði greiddu 150 eða 13,66%

Já 122 eða 81,4%

Nei 24 eða 16%

Auðir 4 eða 2,6%

 Samningurinn er því samþykktur.

 

 

Kjörstjórn Bárunnar, stéttarfélags

 

Nánari upplýsingar um kjarasamning frá 20. febrúar sl.

Kynningarefni vegna kjarasamninga – febrúar 2014 (4)

Kosning er rafræn og stendur frá kl. 12:00 föstudaginn 28. febrúar til föstudagsins 7. mars kl. 12:00

Inn á heimasíðu félagsins, baran.is,  eru leiðbeiningar og hnappur sem opnar á aðgang að kosningunni. Verið er að senda kjörgögn til félagsmanna og þar með er notendanafn og lykilorð.

Hægt er að hafa samband við skrifstofu í s. 480 5000 og fá aðstoð.

Starfsmenn félagsins geta veitt einnig veitt aðstoð í fyrirtækjum sé þess óskað. Skrifstofan verður opin miðvikudaginn 5. mars nk til kl. 19:30.

Helstu atriði sáttatillögu frá 20. febrúar 2014

Þann 20. febrúar síðastliðinn skrifaði Báran, stéttarfélag undir sáttatillögu ríkissáttasemjara vegna nýrra kjarasamninga. Um er að ræða tillögu sem er hugsuð sem viðauki við kjarasamning sem undirritaður var 21. desember sl. við Samtök atvinnulífsins.

 

Viðaukinn felur í sér hækkanir á desember- og orlofsuppbótum, en þær munu hækka um samtals 32.300 kr. frá síðast gildandi kjarasamningi. Desemberuppbót á árinu 2014 verður 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 verður 39.500 kr.

 Einnig kemur til sérstök eingreiðsla verður greidd út til launafólks í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014. Eingreiðslan nemur 14.600 kr. miðað við fullt starf, fyrir þá starfsmenn sem voru starfandi í janúar 2014 og voru ennþá starfandi þann 1. febrúar sl.

 Þá má nefna bókun sem Starfsgreinasamband Íslands/Flóabandalagið og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér. Samkvæmt henni munu samningaaðilar skoða grundvöll fyrir breytingum á fyrirkomulagi fatapeninga í fiskvinnslum fyrir 1. maí næstkomandi og leggja til breytingar á þeim ef ástæða reynist til.

 Samningurinn gildir til loka febrúar 2015 og mun hann þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar.

 

Kosning verður um kjarasamninginn frá kl. 12:00 föstudaginn 28. febrúar og lýkur föstudaginn 7. mars og verður með svipuðum hætti og síðasta kosning.

Kjörgögn fara í póst í dag og einnig verður frekari upplýsingar birtar á heimasíðunni seinna í dag.

 

 

Báran til sáttasemjara

Ríkissáttarsemjari boðaði í fyrradag á fund sinn samninganefndir þeirra félaga SGS sem felldu kjarasamninga.

Fulltrúar Bárunnar, stéttafélags mættu á fund Ríkissáttasemjara í gær.

Á fundinn mættu einnig framkvæmdarstjóri og aðstoðarframkvæmdastjórar Samtaka atvinnulífsins.

Fundurinn var fyrst og fremst boðaður til að þreifa á aðilum og fá útskýringar á viðbrögðum í kjölfar þess að kjarasamningar voru felldir með meirihluta atkvæða í síðustu viku.

Ekki hefur verið boðaður annar fundur en þreufingar halda áfram.

Báran felldi samningana

Niðurstaða liggur fyrir í atkvæðagreiðslu félagsmanna Bárunnar, stéttarfélags um kjarasamningana sem undirritaðir voru af samninganefndum ASÍ og SA þ. 21. desember sl.

Niðurstaðan er sem hér segir:

Á kjörskrá voru 1544

Alls greiddu 176 félagsmenn atkvæði eða 11,40%.

 Já sögðu 53 eða alls 30%

 Nei sögðu 118 eða alls 67%

 5 skiluðu auðu eða alls 3%.

 

 Samningurinn er því felldur.

Niðurstöðu í öðrum félögum má sjá hér, á heimasíðu ASÍ

https://asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-4016

Í TILEFNI UMRÆÐU UM KJARASAMNINGA 12. JANÚAR 2014

 

Tekið af vef Starfsgeinasambandsins:

Mikil umræða hefur farið fram í fjölmiðlum og víðar um nýgerða kjarasamninga sem félagsmenn okkar eru þessa dagana að greiða atkvæði um.

Umræða um kjaramál er góð en þó þarf að gæta sanngirni og að fólk geti treyst því að rétt sé farið með. Rétt er að koma því á framfæri að mikil og góð samstaða var innan samninganefndar SGS þegar kröfugerð sambandsins var mótuð. Krafan var að hækka lægstu taxta um 20.000 krónur og önnur laun tækju 7% hækkun.

 Þarna verður að hafa í huga að Starfsgreinasambandið semur fyrir fólk sem er með lægstu launin á almenna vinnumarkaðnum. Með kröfunni um 7% hækkun var ekki verið að leggja til að hálaunafólk fengi slíka hækkun enda er það fólk ekki innan raða SGS. Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur alltaf hafnað því að kröfugerð sambandsins leiddi til aukinnar verðbólgu enda ber SGS ekki ábyrgð á launaskriði millitekju- og hálaunafólks.

Nauðsynlegt er að hafa það í huga í umræðum um kröfugerðir annars vegar og fyrirliggjandi samninga hinsvegar. Samningaviðræðurnar voru erfiðar og ljóst að Samtök atvinnulífsins ætluðu ekkert að gefa eftir og höfnuðu því lengst af að fara upp fyrir 2% almenna hækkun hvað þá að hækka lægstu laun sérstaklega um ákveðna krónutölu. Þeir samningar sem nú liggja fyrir voru að mati meirihluta samninganefndar SGS eins góðir og hægt var að ná á þessum tímapunkti og var niðurstaðan að leggja þá í dóm almennra félagsmanna.

Fundur samninganefndar um kjarasamningana

Stjórn og og trúnaðarmenn Bárunnar sem skipa samninganefnd félagsins komu saman  nú fyrir helgi þar sem staðan var tekin varðandi kjarasamninginn sem skrifað var undir 21. des sl.

Sem kunnugt er og fram hefur komið í fjölmiðlum, var formaður Bárunnar einn fimm formanna sem skrifaði  ekki undir samninginn. Formaður útskýrði þá ákvörðun sína, en jafnframt væri eðlilegt að bera endanlega ákvörðun undir atkvæði félagsmanna.

 Ákveðið var að kosning yrði rafræn og verður nánar auglýst í staðarblöðum á næstu dögum hvernig henni verður háttað.

Kynning á kjarasamningi sem skrifað var undir 21. desember

Kaupliðir
 

Almenn launahækkun

Hinn 1. janúar 2014 skulu laun hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma.

 Sérstök hækkun kauptaxta

Í stað áðurgildandi kauptaxta komi nýir sem eru hluti samninga viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ. Launataxtar undir 230.000 kr. á mánuði hækka sérstaklega um 1.750 kr. Kauptaxtar gilda frá 1. janúar 2014.

 Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf skv. kjarasamningum viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ skulu vera kr. 214.000 frá 1. janúar 2014 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

 Desember- og orlofsuppbót

Desemberuppbót  miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 53.600 (VR/LÍV 60.900).

Orlofsuppbót (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 29.500 (VR/LÍV 22.200).

 Framlög til fræðslu- og starfsmenntasjóða hækka um 0,1%.

 

Samningurinn í heild sinni

 

Kjarasamningur 21.12.2013

 

Yfirlýsing frá Bárunni, stéttarfélagi

Formaður Bárunnar, stéttarfélags Halldóra Sigr. Sveinsdóttir undirritaði ekki kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Ísland sem skrifað var undir þann 21. des. sl. og var eitt þeirra fimm félaga sem ekki undirrituðu samninginn.

Báran, stéttarfélag harmar þá láglaunastefnu sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði. Félagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með fyrirliggjandi samning fyrir þá sem lökust hafa kjörin. Algengustu launataxtar eru núna á bilinu 207.814 – 222.030, lágmarkstekjur fyrir fullt starf verður 214.000. Skattabreytingarnar koma þeim tekjuhærri til góða en lágtekuhóparnir bera ekkert úr býtum.

Framganga Samtaka atvinnulífsins í aðdraganda samninganna opinberaði algjört skilningsleysi og virðingarleysi gagnvart þeim sem lægstu kjörin hafa. Eftir þá miklu faglegu vinnu sem fór fram meðal félaganna innan Starfsgreinasambands Íslands hörmum við það tómlæti sem Samtök atvinnulífsins sýndu í kjarasamningsgerðinni og hörmum þá stefnubreytingu sem virðist hafa átt sér stað með nýrri forystu SA og afneitun þeirra á siðferðis- og samfélagslegri ábyrgð.

Krafan um hækkun persónuafsláttar náði ekki fram að ganga og undirstrikar það þá augljósu stefnu nýrrar ríkisstjórnar sem felur í sér aukna misskiptinu á kjörum þegna þessa lands.

Allir þurfa að axla siðferðis-og samfélagslega ábyrgð. Launafólk hefur ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Báran, stéttarfélag skorar á viðsemjendur og stjórnvöld að gera slíkt hið sama.

Selfossi 23.12 2013

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður