Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nýr kjarasamningur fyrir landbúnaðarverkafólk

Bændasamtök Íslands hafa samið við Starfsgreinasamband Íslands og um nýjan kjarasamning fyrir starfsfólk sem vinnur almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Samningurinn er afturvirkur og gildir frá og með 1. júní 2011 til 31. janúar 2014. Fyrirvari er á kjarasamningnum þar til stjórn BÍ hefur samþykkt hann en hún fundar í þessari viku. 

Búfræðingar fá námið metið til launahækkunar
Við samþykkt kjarasamningsins er kveðið á um eingreiðslu að upphæð kr. 50 þúsund fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem er við störf í maí 2011 og miðast greiðslan við fullt starf í mánuðinum mars-maí 2011. Sú nýlunda er í samningnum að þeir starfsmenn sem lokið hafa búfræðinámi, fiskeldisnámi eða tveggja ára háskólanámi við tamningar raðast í hærri launaflokk en almennir landbúnaðarverkamenn. Fiskeldisfræðingar og tamningamenn fengu sambærilega samninga í kjarasamningum við SA sl. vor.

Byrjunarlaun landbúnaðarverkafólks verða 184.711 krónur
Byrjunarlaun búfræðinga eru 197.812 krónur en með 7 ára starfsreynslu er taxtinn 205.936 krónur. Almenn byrjunarlaun landbúnaðarverkamanna eru 184.711 krónur og 192.030 krónur eftir 7 ára starf. Hámarksgreiðsla fyrir fæði og húsnæði er 2.040 krónur á dag í nýja samningnum fyrir 18 ára og eldri. Grunnlaun 17 ára unglinga verða 175.475 krónur á mánuði og 14 ára 120.062 krónur.

Nefnd ætlað að meta fræðslumál starfsmanna í landbúnaði
Sérstök bókun í samningnum var gerð um það að setja á laggirnar fjögurra manna nefnd sem mun fjalla um fræðslumál starfsmanna í landbúnaði. Nefndinni er ætlað að skoða framboð á námskeiðum fyrir landbúnaðarverkamenn og koma með tillögur um úrbætur telji nefndin ástæðu til þess. Þá er nefndinni ætlað að ræða hvort meta eigi samþykkt námskeið til launahækkana.

Samningurinn BÍ og SGS er aðgengilegur á pdf-skjaliá vef Bændasamtakanna en þar má m.a. sjá launatöflur og ítarlegri ákvæði.

Samningur BÍ og Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Þórhafnar er samhljóða samningi við SGS. Hann er aðgengilegur hér.

Tekið af heimasíðu Bændasamtaka Íslands.

Kjarasamningur við Sólheima

Talin hafa verið atkvæði um kjarasamning milli Bárunnar, stéttarfélags og Sólheima ses.

Niðurstaðan er sem hér segir:

Á kjörskrá voru 34

Greidd atkvæði voru 13 og kjörsókn því 38%

Já sögðu 12 eða 92%

Nei sagði 1 eða  8%

Auðir eða ógildir 0

Samningurinn er því samþykktur og gildir til 30. júní 2014

Samningur við Kumbaravog

Talin hafa verið atkvæði vegna kjarasamnings Bárunnar, stéttarfélags við Kumbaravog ehf. Á kjörskrá voru 44 og kjörsókn var 50%.
Samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Nýr samningur gildir til 30. júní 2014.

Barnagleraugu í óskilum

Bleik/fjólublá Barnagleraugu fundust í afgreiðslurými Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi. Þeir sem sakna gleraugnanna geta haft samband í síma 480-5000

Norrænt þing starfsfólks í matvælaframleiðslu á Selfossi

Þing Nordiska Unionen, samtaka launafólks í matvælaframleiðslu á Norðurlöndum, verður haldin á Selfossi daganna 21-23 ágúst.

Samtökin er norrænn samstarfsvettvangur um 150.000 félagsmanna innan margvíslegra starfsgreina tengdum matvælaframleiðslu, s.s. fiskvinnslu, landbúnaði og matvælavinnslu. Á þingið mæta um 50 fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum til að ræða málefni starfsfólks í matvælaiðnaði. Aðal áherslan verður á samþættingu kjarasamninga á milli Norðurlanda og innan Evrópu til að spyrna við félagslegum undirboðum sem hafa leitt til kjaraskerðingar á meðal félagsmanna.

Starfsgreinasamband Íslands og Matvís eiga samanlagt fimm fulltrúa á þinginu. Fulltrúar SGS á þinginu verða Halldóra S. Sveinssdóttir formaður Bárunnar Stéttarfélags og sviðstjóri matvælasviðs SGS, Anna Júlíusdóttir  frá Einingu Iðju, varasviðstjóri matvælasviðs, og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður Afls Starfsgreinafélags og varaformaður Starfsgreinasambandsins. Að auki mun Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags og fyrrverandi sviðstjóri matvælasviðs sitja þingið.

Vegna verkfalls leikskólakennara

Eins og flestum er kunnugt þá hefur Félag Leikskólakennara boðað verkfall frá og með 22. ágúst nk. hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þar sem okkar félagsmenn starfa á leikskólum við hliðina á leikskólakennurum sem hugsanlega fara í verkfall, er nauðsynlegt að hafa í huga hvað gæti talist verkfallsbrot, þ.e. verði túlkað þannig að okkar fólk sé að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Meðfylgjandi eru viðmiðunarreglur Félags leikskólakennara sem félagið leggur til grundvallar á verfallsvörslu sinni sem framkvæmd verður af Félagi leikskólakennara og á ábyrgð þess.

Báran, stéttarfélag hvetur félagsmenn til að sýna Félagi leikskólakennara stuðning í þessari kjarabaráttu og virða eftirtaldar viðmiðunarreglur í verkfalli sem stjórn Félags leikskólakennara hefur samþykkt.

 

 

 

Viðmiðunarreglur í verkfalli Félags leikskólakennara

Sé ekki farið að þessum viðmiðunarreglum gæti það verið túlkað sem verkfallsbrot.

  • Ekki er heimilst að taka börn inn á deildir þar sem deildarstjórinn er í Félagi leikskólakennara. Þær deildir eru lokaðar.
  • Ef deildarstjóri er ekki í Félagi leikskólakennara má sú deild taka við börnum sem skráð eru á þá deild, ekki af öðrum deildum.
  • Ef deildarstjóri er í Félagi stjórnenda leikskóla (t.d. aðstoðarleikskólastjóri) má sú deild taka við börnum sem skráð eru þar, ekki af öðrum deildum. Ef deilarstjórinn er í 50% starfi, má deildin einungis taka við börnum hálfan daginn.
  • Ef starfsmaður sem er félagi í FL starfar á deild þar sem deildarstjóri er ekki í verkfalli, fækkar börnum á deildinni sem því nemur (miðað við barngildisútreikninga).
  • Ef félagsmaður í Félagi leikskólakennara er yfirmaður í frístund/skólavistun í grunnskóla eða sambærilegri stofnun, er frístund/skólavistun ekki heimilt að taka á móti börnum á meðan á verkfalli stendur.
  • Námsferðir í verkfalli eru túlkaðar sem verkfallsbrot.
  • Námskeið og önnur símenntun í verkfalli er túlkað sem verkfallsbrot.
  • Starfsmönnum leikskóla sem verkfallið nær EKKI yfir, er óheimilt að taka eigin börn með sér í leikskólann á meðan verkfallið stendur, sé deild barnsins lokuð.
  • Félagar í félagi leikskólakennara sem eru í orlofi ef verkfall skellur á, detta út af launaskrá. Viðkomandi heldur orlofsrétti sínum og getur annað hvort farið í orlof eftir að verkfalli lýkur eða fengið orlofið greitt samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda.
  • Félagar í Félagi leikskólakennara sem eru í veikindaleyfi ef verkfall skellur á, detta út af launaskrá á meðan verkfallið stendur. Þann tím eru þeir þ.a.l. ekki að nýta veikindarétt sinn.
  • Greiðslur úr Fæðingarorlofsssjóði  til þeirra sem eru í fæðingarorlofi haldast óbreyttar í verkfalli.

Samþykkt í stjórn FL 10. ágúst 2011 og yfirfarið að lögfræðingi KÍ.

 

 

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir

Formaður Bárunnar, stéttarfélags

Báran, stéttarfélag

Austurvegi 56

800-Selfoss

s.4805000

halldora@baran.is

Kjarasamningur samþykktur

Félagsmenn í Bárunni, stéttarfélagi samþykktu nýgerðan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga. 92,3% þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já. Samningurinn var samþykktur með afgerandi hætti í öllum aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins.

Samningurinn í heild sinni er hér

Launataflan er hér

 

Á kjörskrá voru alls 2257

Kjörsókn var 32,7%

Já sögðu 89%

Nei sögðu 10%

Auðir og ógildir seðlar 1%

AFL Starfsgreinafélag

Á kjörskrá voru alls 391

Kjörsókn var 31,7%

Já sögðu 87,1%

Nei sögðu 12,9%

Auðir og ógildir seðlar 0

Aldan stéttarfélag

Á kjörskrá voru alls 144

Kjörsókn var 25,7%

Já sögðu 100%

Nei sögðu 0

Auðir og ógildir seðlar 0

Báran stéttarfélag

Á kjörskrá voru alls 111

Kjörsókn var 12%

Já sögðu 92,3%

Nei sögðu 7,7%

Auðir og ógildir seðlar 0

Drífandi stéttarfélag

Ekki næg þátttaka til þess að atkvæðagreiðslan teldist gild. Þeir sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn.

Eining-Iðja

Á kjörskrá voru alls 960

Kjörsókn var 38,5%

Já sögðu 85,9%

Nei sögðu 13%

Auðir og ógildir seðlar 1,1%

Stéttarfélag Vesturlands

Á kjörskrá voru alls 97

Kjörsókn var 34%

Já sögðu 87,9%

Nei sögðu 9,1%

Auðir og ógildir seðlar 3%

Stéttarfélagið Samstaða

Á kjörskrá voru alls 151

Kjörsókn var 26%

Já sögðu 95%

Nei sögðu 5%

Auðir og ógildir seðlar 0

Verkalýðsfélag Grindavíkur

Á kjörskrá voru alls 26

Kjörsókn var 15,4%

Já sögðu 100%

Nei sögðu 0

Auðir og ógildir seðlar 0

Verkalýðsfélag Suðurlands

Á kjörskrá voru alls 132

Kjörsókn var 37,9%

Já sögðu 90%

Nei sögðu 4%

Auðir og ógildir seðlar 6%

Verkalýðsfélag Snæfellinga

Á kjörskrá voru alls 22

Kjörsókn var 27%

Já sögðu 83%

Nei sögðu 17%

Auðir og ógildir seðlar 0

Verkalýðs og sjómannafélag Bolungarvíkur

Á kjörskrá voru alls 24

Kjörsókn var 16,7%

Já sögðu 100%

Nei sögðu 0

Auðir og ógildir seðlar 0

Verkalýðs og sjómannafélag Sandgerðis

Á kjörskrá voru alls 7

Kjörsókn var 57,1%

Já sögðu 100%

Nei sögðu

Auðir og ógildir seðlar

Frá almennum félagsmönnum innan aðildafélaga SGS

Eftirfarandi bréf hefur verið sent til formanns Starfsgreinasambandsins og til Morgunblaðsins:

Ástæðan er að við erum nokkur hópur félagsmanna víða af landinu sem er mjög ósáttur við afgreiðslu framkvæmdarstjórnar Starfsgreinasambandsins í kjölfarið á skoðun sem framkvæmd var á fjárreiðum sambandsins. Erfiðlega hefur gengið að fá haldbær svör og því er þessi leið farin. Formaður sambandsins lagði fram þá tillögu sem samþykkt var og því er þessum spurningum beint til hans. Ekki var einhugur um þessa afgreiðslu innan stjórnarinnar og vildi hluti stjórnar fara aðra leið sem hefði verið eðlilegri að okkar mati.

 

Við teljum að meirihluti framkvæmdastjórnar hafi tekið ranga ákvörðun um starfslok framkvæmdarstjóra og erum ósátt við þá ákvörðun að skoða ekki fjármálin lengra aftur í tímann fyrst á annað borð er grunur um misferli. Það er krafa að það verði síðar skoðað.

Eins og þetta tiltekna mál lítur út fyrir okkur þá er ekkert sem segir okkur að hagsmunir hins almenna félagsmanns hafi verið hafðir að leiðarljósi. Frekar hafa menn tilfinningu fyrir því að þarna sé verið að halda hlífiskildi yfir ákveðnum aðilum til að tryggja að þeir þurfi ekki að taka afleiðingum gerða sinna frekar en nokkur annar í þessu samfélagi sem á annað borð hefur komist í einhverja ábyrðarstöðu. Við teljum þetta bera vott um hugarfar sem á ekki heima í verkalýðsbaráttu þar sem hver króna í umslag launamannsins kostar blóð, svita og tár og baráttan fyrir að halda því sem náðst hefur er hörð og óvægin.

Málið snýst um gagnrýni okkar er á vinnubrögð og hugarfar forystunnar. Við teljum að verkalýðshreyfingin eigi að ganga í fararbroddi með bætt vinnubrögð og gegnsæi í ákvörðunum sínum og gerðum

Forystumenn okkar eru leiðtogar þess hóps í þessu samfélagi sem hvað minnst ber úr býtum á vinnumarkaðnum og teljum að öll vinnubrögð eigi að vera hafinn yfir allan vafa um að eitthvað annað ráði en hagsmunir félagsmanna.

Við teljum ennfremur að á tímum sem þessum þar sem launamenn eiga í vök að verjast þá eigi það að vera forgangsmál okkar að endurvekja traust á verkalýðshreyfingunni og safna félagsmönnum á bak við forystuna svo viðsemjendur okkar fari ekki í neinar grafgötur með það afl sem sameinuð verkalýðshreyfing er.

Við teljum almennt að vinnubrögðum innan verkalýðshreyfingarinnar sé í mörgu áfátt þrátt fyrir að þar séu innanborðs hið mætasta fólk sem ekki má vamm sitt vita. Við teljum nauðsynlegt að málefni okkar séu rædd opinskátt og séu teknar ákvarðanir sem klárlega vekja upp spurningar hjá félagsmönnum þá þurfi skýringar að fylgja svo ekki skapist andrúmsloft tortryggni og sundrungar. Það er það síðasta sem við þurfum á að halda núna. Mál af þessu tagi býður upp á spurningar sem félagsmenn eiga fullan rétt á að fá svör við frá sínum forystumönnum.

Bak við ykkur forystumenn stendur stór hópur fólks sem er tilbúinn til að styðja ykkur til allra góðra verka. Til að vekja áhuga og kraft þessa fólks þá þarf öll umræða að vera uppi á borðinu og öll vinnubrögð hafin yfir allan vafa.

Við munum halda áfram þessari baráttu okkar áfram þar til menn eru tilbúnir til að setjast niður og ræða stöðuna og hvernig hægt er að bæta hlutina. Þessi umræða þarf að fara fram sem víðast, ekki bara í hópi forystumanna heldur innan félaganna, á síðum blaðanna, í netheimum og ekki síst í hjarta hvers þess sem gefur sig út fyrir að starfa til heilla launamönnum.

Að endingu óskum við eftir að þetta verði birt á heimasíðu félags yðar, félögum til upplýsingar.


Til formanns Starfsgreinasambands Íslands, Björns Snæbjörnssonar


Á fundi SGS 26 maí síðastliðinn var samþykkt tillaga Björns Snæbjörnssonar um starfslok Skúla Thoroddsen vegna trúnaðarbrests. Í afgreiðslunni fellst að gerður verði stafslokasamningur sem tryggir Skúla laun á uppsagnafresti ásamt orlofi og áunnum réttindum og að hann verði einungis endurkrafinn um hluta þess fjár sem hann er grunaður um að hafa dregið sér. Spyrja verður hvort þessi viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar séu viðtekin venja komi sambærileg mál upp innan raða forystumanna hreyfingarinnar og hvort þeir formenn félaga sem stóðu að umræddri samþykkt séu með henni að víkja hreyfingunni undan ábyrgð á spillingu innan eigin raða. Þá viljum við undirritaðir félagsmenn stéttarfélaga í Starfsgreinasambandi Íslands, fá svör formanns SGS við eftirfarandi spurningum og óskum eftir að þau svör verði birt sem fyrst á opinberum vettvangi, almennum félagsmönnum til glöggvunar.

 

 


1.
Hvers vegna er grun um refsivert misferli í starfi ekki fylgt eftir með ákæru?


2.
Voru hagsmunir félagsmanna í SGS hafðir að leiðarljósi þegar þú lagðir fram þá tillögu sem samþykkt var af meirihluta framkvæmdarstjórnar?


3.
Hvað kostar þessi starfslokasamningur?


4.
Telur þú sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni að þessi viðbrögð við skýrslu Deloitt séu til þess fallin að auka traust á verkalýðshreyfingunni?


5.
Telur þú sem formaður stærstu samtaka launþega innan Alþýðusambands Íslands ekki eðlilegt að birta frétt á heimasíðu sambandsins um gagngera breytingu í starfmannahaldi SGS með útskýringum?

 


Þessum spurningum er beint til Björns Snæbjörnssonar formanns SGS sem lagði fram tillögu fyrir framkvæmdarstjórn Starfsgreinasambands Íslands um að semja við Skúla Thoroddsen um starfslok þrátt fyrir að rökstuddur grunur sé um umboðssvik og fjárdrátt. Við teljum að Björn verði að útskýra fyrir okkur sauðsvörtum almúganum hvers vegna sumir eru jafnari fyrir lögunum en aðrir, svo við getum tekið mið af því í okkar störfum sem við kunnum að takast á hendur fyrir verkalýðshreyfinguna.

 


Loftur Guðmundsson, Bárunni stéttarfélagi


Ragnhildur Eiríksdóttir, Bárunni stéttarfélagi


Hjalti Tómasson Bárunni stéttarfélagi


Agnes Einarsdóttir, Framsýn stéttarfélagi


Olga Gísladóttir, Framsýn stéttarfélagi


Svava Árnadóttir, Framsýn stéttarfélagi


Valdimar Gunnarsson, Einingu – Iðju


Tryggvi Jóhannesson, Einingu – Iðju


Ólafur P. Agnarsson, Einingu – Iðju


Óskar Guðjón Kjartansson, Drífanda stéttarfélagi


Albert Sævarsson, Drífanda stéttarfélagi


Gunnhildur Elíasdóttir, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga


Eygló Jónsdóttir, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga


Sigurjón Skæringsson, Eflingu, stéttarfélagi

 

 

Afrit sent á mbl.is

Formenn aðildafélaga Starfsgreinasambands Íslands

 

Kynningarfundur vegna sveitarfélagssamnings á morgun í sal ÞSS Selfossi

Þann 30. júní sl. var undirritaður samningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands íslands vegna félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum. Báran er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands.

Kynningarfundur vegna kjarasamningsins verður haldinn miðvikudaginn 13. júlí klukkan 12.00 í sal Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna, Austurvegi 56, Selfossi. Í boði verður léttur hádegismatur.

Einnig geta fulltrúar félagsins komið á vinnustaðinn og kynnt samninginn. Hægt er að panta fund með því að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 480-5000.

Við viljum minna á atkvæðagreiðsluna sem núna stendur yfir. Atkvæði verða að hafa borist kjörstjórn félagsins sem staðsett er á Selfossi fyrir kl. 16:00, þann 18. júlí nk. Atkvæði sem berast eftir það verða ekki talin, póststimpill gildir ekki.

Launamenn, athugið launaseðla !

Nokkuð hefur borið á ákveðnum misskilningi hvað varða nýgerða kjarasamninga. Þeir samningar sem búið er að samþykkja kveða á um prósentuhækkun eða krónutöluhækkun. Miðað við launatöflur sem fylgja undirrituðum kjarasamningum þá er ljóst að um sameiginlega túlkun Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands er að ræða.

Samkvæmt útreikningum þá hækka laun kr. 282,353 og þar undir um kr. 12,000 en á laun þar yfir reiknast prósentuhækkun ( 4,25 % ). 


Hér er átt við taxtalaun, ekki laun eftir að reiknaðir hafa verið bónusar eða aðrir kaupaukar svo dæmi sé tekið.

Benda má á að sameiginlegt markmið samningsaðila var að hækka lægstu laun umfram önnur og er þetta sú leið sem samið var um milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar.

Séu menn enn í vafa má benda mönnum á að kynna sér nýútgefnar launatöflur þar sem þetta er útreiknað með hækkunum.

Falli menn ekki inn í taxta en eru á launum sem ekki ná fyrrgreindri upphæð skal greiða krónutöluhækkunina.

Rétt er að benda á að ekki hefur verið gengið frá öllum kjarasamningum en ofangreint gildir um alla þá sem afgreiddir hafa verið.

Við hvetjum félagsmenn til að fylgjast með að umsamin hækkun sé rétt reiknuð og vekja athygli vinnuveitanda síns á þeirri túlkun sem hér hefur verið útskýrð.

Nánari upplýsingar er að finna á skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags í síma 480 5000

Einnig má senda póst á netföngin:


hjaltit@midja.is
 eða thor@midja.is